Fór tíu ára í hús að selja gellur

Deila:

Maður vikunnar er Eyjamaður. Hann byrjaði ungur í humarvinnslu hjá VSV og fékk 7 krónur og 10 aura á tímann. Hann komst í 110 krónur á viku. Síðari árin hefur hann verið einn af þeim frumherjum sem unnið hafa að tæknivæðingu í íslenskri fiskvinnslu.

Nafn:

Óskar Veigu Óskarsson.

Hvaðan ertu?

Vestmannaeyjum.

Fjölskylduhagir?

Ekkill,  4 yndisleg uppkomin börn og 13 barnabörn, er í sambandi með frábærum Golfara 😊

Hvar starfar þú núna?

Sölustjóri hjá Marel/Curio FISH, sé um sölu á búnaði í hvítfiski á Íslandi, búinn að vera við þá vinnu síðastliðin 23 ár.

Hvenær hófst þú vinnu við sjávarútveg?

Byrjaði 10 ára, smíðaði mér gelluvagn, fór svo í hús og seldi gellur. 11 ára í VSV í Eyjum þar sem ég vann við humarvinnu tvær til þrjár vikur yfir sumartímann, gerði þetta tvö sumur, vann sirka einn til tvo tíma á dag og fékk 7 krónur og 10 aura á tímann, náði allt að 110 krónum á viku. Síðan lá leiðin í Ísfélag Vestmannaeyja hf, þar sem ég starfaði allt í allt í 18 ár. Sem rafvirki og verkstjóri og framleiðslustjóri.

Hvað er það skemmtilegasta við að vinna við íslenskan sjávarútveg?

Vinna með og kynnast öllu því frábæra fólki sem vinnur við Sjávarútveg á Íslandi, sjá öll tækifæri sem sjávarútvegurinn býður upp á, endalaus tækifæri sem gaman hefur verið að taka þátt í. Ég er mjög stoltur af því að eiga þátt í því að að tæknivæða fiskvinnslurnar á Íslandi.

En það erfiðasta?

Halda áfram á sömu braut eftir að ég varð ekkill, svo er eitthvað svakalega erfitt og skrítið að þurfa bráðum að hætta, en kallinn er víst löngu kominn á aldur, svona er lífið,,,

Hvað er það skrýtnasta sem þú hefur lent í í störfum þínum?

Yfirgefa Vestmannaeyjar í gosinu, allt fullt af fiski í ÍVV sem við þurftum svo að henda löngu seinna.

Hver eftirminnilegasti vinnufélagi þinn?

Þeir eru margir góðir og frábærir vinnufélagar, en það hallar ekki á neinn þó ég nefni Valdimar Gunnar Sigurðsson, yndislegur vinnufélagi og vinur, hefur kennt mér mikið, á mikinn þátt í því að ég er enn að, hefur alltaf hvatt mig áfram.


Hver eru áhugamál þín?  

Golf, svo er ég mikill LIVERPOOL fan, horfi á alla leiki ef ég get með Liverpool.


Hver er uppáhaldsmaturinn þinn?

Fiskur og lambakjöt, best með ískaldri „blárri“ mjólk. Þarf ekkert meira.


Hvert færir þú í draumfríið?

Golfferð erlendis með Golfaranum og svo á leiki með Liverpool, búinn að fara átta sinnum á heimaleiki.

Deila: