Ægir helgaður sjómannadeginum

Deila:

Nýjasta tölublað Ægis er helgað sjómannadeginum, sem haldinn verður hátíðlegur um næstu helgi. Í blaðinu er rætt sjómenn; Erling Arnar Óskarsson, skipstjóra á Baldvin Njálssyni, Játvarð Jökul Atlason, strandveiðimann í Stykkishólmi, Inga Þór Arnarson, háseta og afleysingarkokk á Bergey og útgerðarfeðga í Grímsey. Fjallað er um sjávarútveginn sem burðarás landsbyggðarinnar, rætt við Ástu Björk Sigurðardóttur, hagfræðing hjá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi og rætt við Þorstein Sigurðsson, forstjóra Hafrannsóknastofnunar um framtíð loðnunnar. Að auki er ýmislegt efnir og fréttir að finna í blaðinu.

Jóhann Ólafur Halldórsson ritar eftirfarandi í leiðara blaðsins:

„Enn er komið að sjómannadeginum sem nú verður loks hægt að halda hátíðlegan með svipuðum hætti og venja hefur verið í áratugi. Áhrifa Covid-19 gætir æ minna með hverri vikunni sem líður og flest er að færast í venjubundið horf í þjóðlífinu þó ýmsar samkomur séu enn með lágstemmdari hætti en áður. Það á við um hátíðarhöld sjómannadagsins hér og hvar um landið þó á öðrum stöðum sé blásið í lúðra og blöðrur líkt og fyrir faraldurstímann. Það er vel því sjómannadagurinn er þrátt fyrir allt ákveðin tenging fólks í landi við sjómennskuna og sjávarútveginn. Hann er líka tækifæri til að minna á gildi öryggismála og ýmissa annarra hagsmunamála sjómannastéttarinnar.

Það lifa góðu lífi með okkur sögur og söngvar um líf sjómannsins, hetjudáðir og á stundum slark. En staðreyndin er sú að starf margra sjómanna hefur gjörbreyst frá fyrri tíð, jafnvel á mjög fáum árum. Nýjungar og framþróun í skipastólnum skiptir miklu máli fyrir starfsumhverfi sjómanna, tæknivæðing og þróun hvert sem litið er, aðbúnaðurinn um borð er betri, skipin oft talsvert stærri og það er einhvern veginn þannig að þegar nýtt skip bætist í skipastólinn þá er betri aðbúnaður áhafnar yfirleitt það atriði sem útgerð og hönnuðir nefna fyrst til sögunnar. Ekki afkastagetan heldur það sem að starfsmönnunum snýr. Það er vel og til marks um breytta hugsun þó engin ástæða sé til annars en ætla að útgerðir fyrri tíma hafi alltaf haft hag sinna starfsmanna að leiðarljósi.

En það eru líka atriði sem snúa að starfi sjómanna sem ekki felast í tækjum og tólum eða skipunum sjálfum. Hvernig er vaktafyrirkomulagið um borð, útgerðarformið, reglubundin frí og margir slíkir þættir? Hér blaðinu er viðtal við sjómann á besta aldri, fjölskyldumann í Vestmannaeyjum sem bendir á að helsti kosturinn við sjómennskuna sé einmitt að geta hagað því þannig að hann geti verið í fríi þegar hann er í fríi með fjölskyldunni. Í dag þykir ungu fólki vinnufíknin nefnilega ekki dyggð líkt og kannski hrjáir margar sem enn eru á vinnumarkaði og voru aldir upp við það að byrja að vinna myrkranna á milli strax á barnsaldri og berjast svo um á hæl og hnakka allt lífið til að taka þátt í lífsgæðakapphlaupinu.

Áður fyrr þótti það ekki tiltökumál þó fjölskyldufeður færu á sjó svo mánuðum skipti frá maka og börnum í landi en sem betur fer er öldin talsvert önnur í dag. Þegar kemur að þeirri umræðu að sífellt verði erfiðara að fá ungt fólk til að leggja sjómennsku fyrir sig þá þarf að hafa í huga að það er allt umhverfi starfsins sem kemur þar til sögunnar. Ekki aðeins launin, þó þau geti á köflum verið mjög góð en lakari á öðrum tímum. Gleymum því ekki að sjómennska er fjarri því einsleitt starf. Það er langur vegur milli þess að róa á smábát, stýra stórum tog[1]ara, vinna á flutningaskipi eða vera í áhöfn varðskips, svo dæmi séu tekin. Allt er þetta samt sjómennska sem í grunninn heillar þá sem hana stunda með sama hætti. Það er eitthvað óútskýranlegt sem dregur marga að sjómennskunni, einhvers konar frelsistilfinning jafnvel þó að á köflum fái menn alveg nóg af vondum veðrum og sjóganginum. Tímaritið Ægir sendir sjómönnum og fjölskyldum hamingju[1]óskir í tilefni sjómannadagsins.“

Deila: