Sjávarútvegssýningin í Kópavogi hafin

Íslenska sjávarútvegssýningin í Kópavogi var opnuð í gær. Henni hafði áður verið frestað tvívegis vegna faraldursins af völdum Covid-19. Vegna þeirra aðstæðna meðal annars er sýningin smærri í sniðum en undanfarnar sýningar.
Marianne Rasmussen-Coulling, framkvæmdastjóri sýningarinnar, kynnti sýninguna í ávarpi við opnunarathöfn sýningarinnar og benti á hið erfiða umhverfi sem ríkt hefur í meira en tvö ár. Benedikt Árnason, ráðuneytisstjóri, opnaði sýninguna og lögðu þau bæði áherslu á sérstöðu Íslands í fararbroddi í heiminum í fiskveiðum og vinnslu fiskafurða.
Hlutfall erlendra sýnenda er fremur hátt að þessu sinni og eru nokkrar þjóðir með sérstaka þjóðarbása. Áberandi er fjöldi skipasmíðastöðva, sem tekur þátt í sýningunni nú. Að vanda er um fjölbreytta sýningu að ræða, þar sem það nýjasta í búnaði til veiða og vinnslu er kynnt. Í tengslum við sýninguna eru veitt verðlaun fyrir framúrskarandi frammistöðu í íslenskum sjávarútvegi.

