Lax í laukrjómasósu með kartöflum

Nú snæðum við lax. Hann er hægt að elda á mjög marga vegu og alltaf er hann jafn góður. Þessi uppskrift er einföld og holl en rétt er að benda á, að oft er fiturönd mikil á roðhlið flaksins og við leggjum til að hún verði skafin af fyrir matreiðslu. Uppskriftin er fyrir tvo.
Innihald:
250g smáar kartöflur skornar í sneiðar
2 msk. ólífuolía
1 blaðlaukur, sneiddur
2 hvítlauksgeirar, marðir
1 ½ dl. rjómi
1 msk. capers og smávegis til viðbótar til skrauts
1 msk. saxaður graslaukur og smávegis til viðbótar til skrauts
Sjávarsalt og svartur pipar
400g laxaflök, roð- og beinlaus
Klettasalat eða annað salat að eigin vali
Aðferð:
Hitið ofninn í 180°C. Hitið vatn að suðu í djúpri pönnu eða potti og sjóðið kartöflurnar í um 8 mínútur. Veiðið þær upp og þerrið, kryddið og leggið þær í eldfast mót með helmingi af olíunni. Bakið í ofninum í 20 mínútur og veltið þeim við eftir helming tímans.
Á meðan kartöflurnar eru að bakast, hitið afganginn af olíunni á góðri pönnu á miðlungshita. Bætið blaðlauknum út á og mýkið í um það bil 5 mínútur. Bætið þá hvítlauknum, capers, rjóma og 1 dl. af heitu vatni út í og hrærið vel saman. Þegar komið er að suðu er graslauknum bætt út í og öllu hrært vel saman.
Stillið grillið í ofninum á hæsta stig. Hellið rjóma- og laukblöndunni yfir kartöflurnar. Leggið þá laxabitana ofan á og grillið í 7 til 8 mínútur. Berið réttinn fram með salati, capers og graslauk.