Forvitnileg ljósmyndasýning í Safnahúsinu

Deila:

Á sjómannadaginn var opnuð forvitnileg ljósmyndasýning í Safnahúsinu í Neskaupstað. Um er að ræða ljósmyndir enska fiskkaupmannsins Pike Wards sem teknar voru á Norðfirði á árunum 1904 – 1908. Það er Skjala- og myndasafn Norðfjarðar sem setti upp sýninguna í samvinnu við Ljósmyndadeild Þjóðminjasafns Íslands. Síldarvinnslan hf. styrkti uppsetningu sýningarinnar en Samvinnufélag útgerðarmanna í Neskaupstað gaf sýningarstandana sem nú eru notaðir í fyrsta sinn.

Fyrir nokkru greindi starfsmaður skjalasafnsins Devon Heritage Archive í Englandi Þjóðminjasafni Íslands frá því að á enska safninu væru varðveittar ljósmyndir sem enski fiskkaupmaðurinn Pike Ward hafði tekið á Íslandi um aldamótin 1900 og í byrjun tuttugustu aldar. Þjóðminjasafnið fékk heimild til að taka eftir myndunum og þá kom í ljós að á meðal þeirra voru myndir frá Norðfirði. Skjala- og myndasafn Norðfjarðar fékk síðan heimild hjá enska safninu til að setja upp sýningu með þeim myndum sem teknar voru á staðnum en þær eru margar afar áhugaverðar.

Fyrirtæki Pike Wards keypti fisk á Austfjörðum upp úr aldamótunum 1900 og skiptu fiskkaup hans miklu máli fyrir Austfirðinga. Ward keypti smáfisk sem áður hafði verið erfitt að koma í verð og að auki greiddi hann fyrir fiskinn með peningum sem var nýlunda. Smáfiskurinn var flattur og verkaður í salt með líkum hætti og tíðkaðist á Labrador og því var fiskurinn gjarnan nefndur Labradorfiskur eða labri. Stundum var fiskurinn reyndar kenndur við kaupandann og kallaður Wardfiskur eða vorðari.

Umboðsmaður enska fiskkaupmannsins á Norðfirði var séra Jón Guðmundsson, sóknarprestur Norðfirðinga. Byggði fyrirtæki Wards fiskgeymsluhús á Neseyri og þar var tekið á móti fiskinum sem það festi kaup á.

Eru Norðfirðingar eindregið hvattir til að heimsækja Safnahúsið og skoða ljósmyndasýninguna og aðrar sýningar sem þar er boðið upp á.

Deila: