Karfinn stendur illa

Deila:

Karfastofnar á Íslandsmiðum virðast búa við bágan kost miðað við ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar fyrir þessar tegundir. Í öllum tilfellum er ráðgjöfin sú minnsta í áratug. Hér er farið ofan í ráðleggingar stofnunarinnar fyrir þessar þrjár tegundir karfa:

Hafrannsóknastofnun og Alþjóðahafrannsóknaráðið ráðleggja, í samræmi við aflareglu, að afli gullkarfa fiskveiðiárið 2022/2023 verði ekki meiri en 25.545 tonn á svæðinu Austur-Grænland / Ísland / Færeyjar. Veiðiálag stofnsins er yfir kjörsókn (FMSY) en undir gátmörkum (Fpa) og varúðarmörkum (Flim). Stærð hrygningarstofns er yfir aðgerðarmörkum (MSY Btrigger), gátmörkum (Bpa) og varúðarmörkum (Blim).

52.000 tonn fiskveiðiárið  2013/2014

Þetta er lægsta ráðgjöf í meira en áratug. Hæst var ráðgjöfin 52.000 tonn fiskveiðiárið 2013/2014.
Ráðlagt aflamark fyrir fiskveiðiárið 2022/2023 er lægri en ráðgjöf síðasta fiskveiðiárs vegna þess að stofnstærð fer minnkandi og stofninn er metinn minni en í fyrra.
Í stofnmatinu í ár er hrygningarstofn metinn minni yfir langt tímabil en í stofnmati undanfarinna ára (um 6 %) og fiskveiðidánartala metin hærri. Fyrir langlífa tegund eins og gullkarfa er samleitni í stofnmati aftur í tímann hægari samanborið við skammlífari tegundir. Samræmi er í stofnmati undanfarinna ára þó óvissa sé talsverð. Gullkarfi er torfufiskur og því fæst stærsti hluti hans í fáum, stórum togum sem leiðir til tilviljanakenndra sveiflna í vísitölum milli ára. Aldursgreindur afli sýnir mjög litla nýliðun, sem er í samræmi við upplýsingar úr stofnmælingum.
Frá árinu 2009 hefur vísitala smás gullkarfa (≤ 30 cm) verið mjög lág í stofnmælingaleiðöngrum. Vísitala eldri fisks hefur minnkað og þar sem ekki er að vænta umtalsverðrar nýliðunar á næstu árum er líklegt að afrakstursgeta stofnsins minnki í framtíðinni. Núverandi stofnmat gerir ráð fyrir hrygningarstofn minnki áfram og verði undir aðgerðarmörkum (MGT Btrigger) árið 2023.

Takmarkaðar upplýsingar um djúpkarfastofninn

Hafrannsóknastofnun og Alþjóðahafrannsóknaráðið leggja til, í samræmi við varúðarsjónarmið, að afli af djúpkarfa fiskveiðiárið 2022/2023 verði ekki meiri en 6.336 tonn. Hafrannsóknastofnun og Alþjóðahafrannsóknaráðið geta ekki metið stöðu stofnsins og veiðiálag m.t.t. aðgerðarmarka hámarksafraksturs (MSY) og varúðarnálgunar (PA) þar sem viðmiðunarmörk hafa ekki verið skilgreind.
Þetta er lægsta ráðgjöf stofnunarinnar í meira en áratug. Hæst var ráðgjöfin fiskveiðiárið 2018/2019 um 13.000 tonn.
Grunnur ráðgjafar fylgir forskrift Alþjóðahafrannsóknaráðsins fyrir stofna þar sem ekki er hægt að framkvæma tölfræðilegt stofnmat en til eru vísitölur sem taldar eru gefa mynd af breytingum í stofnstærð (Category 3 stocks; ICES, 2012). Lífmassavísitala fyrir djúpkarfa úr SMH er notuð til að reikna tímaháða breytingu á stofnvísitölu. Hlutfall meðaltals síðustu tveggja ára (vísitala A) og þriggja ára þar á undan (vísitala B) er margfaldað með ráðgjöf síðasta árs. Varúðarlækkun (20 %) var síðast beitt árið 2021 og var beitt aftur í ár vegna viðvarandi nýliðunarbrests.
Takmarkaðar upplýsingar eru til um afrakstursgetu stofnsins. Smáum djúpkarfa (≤30 cm) hefur fækkað mikið á tímabilinu sem gefur til kynna að nýliðun sé lítil. Þar sem ekki er að vænta umtalsverðrar nýliðunar á næstu árum er líklegt framleiðni stofnsins minnki í framtíðinni.
SMH nær yfir allt veiðisvæði djúpkarfa. Ekki hægt að meta stöðu stofnsins þar sem tegundin er langlíf og tímaröð vísitölu lífmassa er stutt (hefst árið 2000).
Landgrunnið við Austur Grænland er talið vera uppvaxtarsvæði djúpkarfa í landgrunnshlíðum Íslands. Óvíst er hve stór hluti karfa frá þessu svæði skilar sér í veiðistofn djúpkarfa við Ísland. Í stofnmælingum Þjóðverja á landgrunninu við Austur Grænland mældist á árunum 2003–2005 mikið af smáum djúpkarfa (20–30 cm). Á árunum 2006–2010 fækkaði honum, en 30 cm og stærri fjölgaði. Frá árinu 2013 hefur mjög lítið mælst af smáum djúpkarfa.

Lítið af litla karfa

Hafrannsóknastofnun ráðleggur í samræmi við varúðarsjónarmið að afli af litla karfa fiskveiðiárið 2022/2023 verði ekki meiri en 585 tonn. Hafrannsóknastofnun getur ekki metið stöðu stofnsins og veiðiálag m.t.t. aðgerðarmarka hámarksafraksturs (MSY) og varúðarnálgunar (PA) þar sem viðmiðunarmörk hafa ekki verið skilgreind.


Þetta er læsta ráðgjöf fyrir litla karfa í meira en áratug. Á fiskveiðiárunum 2011 til 2019 var ráðgjöfin 1.500 tonn. Síðasta áratug hefur aflinn aldrei náð ráðlögðum heildarafla.
Grunnur ráðgjafar fylgir forskrift Alþjóðahafrannsóknaráðsins fyrir stofna þar sem ekki er hægt að framkvæma tölfræðilegt stofnmat en til eru vísitölur sem taldar eru gefa mynd af breytingum í stofnstærð (Category 3 stocks; ICES, 2012). Lífmassavísitala fyrir litla karfa úr SMB er notuð til að reikna tímaháða breytingu á stofnvísitölu. Hlutfall meðaltals síðustu tveggja ára (vísitala A) og þriggja ára þar á undan (vísitala B) er margfaldað með ráðgjöf síðasta árs. Vísitalan hækkaði um 22 % milli þessara tímabila og er því sveiflujöfnun beitt. Varúðarlækkun (20 %) var síðast beitt árið 2019 og er því beitt í ár.
SMB nær yfir allt veiðisvæði litla karfa á Íslandsmiðum. Skekkjumörk á mati vísitölunnar síðustu ár eru víð, sem stafar af miklum afla í fáum togum. Þetta veldur talsverðri óvissu í mati á lífmassavísitölum frá ári til árs. Þar sem rannsóknir og veiðar á litla karfa hafa verið takmarkaðar er lítið vitað um stofnstærð hans og veiðiþol. Líkt og aðrir karfastofnar við Ísland er litli karfi hægvaxta og langlífur og því mikilvægt að sókn sé takmörkuð.

Deila: