Lægsta ráðgjöf í þorski, hæsta í ýsu

Deila:

Þriðja árið í röð leggur Hafrannsóknastofnun til lækkun á þorskafla og er niðurskurðurinn þessi tvö ár samtals um 23% eð ríflega 63.000 tonn. Stofnunin leggur einnig til niðurskurð í ufsa, en verulega aukningu á ýsuveiðum. Farið er hér nánar í ráðleggingar Hafrannsóknastofnunar fyrir þessar þrjá fiskitegundir.

Sveiflujöfnun í aflareglu

Ráðgjöf fyrir þorskveiðar 2022/2023 lækkar frá fyrra fiskveiðiári vegna lækkunar á mati á viðmiðunarstofni síðustu ár og innbyggðrar sveiflujöfnunar í aflareglu. Viðmiðunarstofninn er metinn um 20 % minni síðustu þrjú ár samanborið við árin þar á undan, þar sem árgangar sem nú eru í veiði eru nokkuð minni en fyrri ár. Líklegt er að stofninn verði svipaður árið 2023 en það mat er þó háð töluverðri óvissu. Fyrstu vísbendingar gefa til kynna að árgangurinn frá 2021 sé nokkuð undir meðaltali en hann kemur ekki í veiðistofninn fyrr en árið 2025.

Mesti ráðlagði ýsuafli í rúman áratug

 Hafrannsóknastofnun og Alþjóðahafrannsóknaráðið leggja til, í samræmi við aflareglu íslenskra stjórnvalda, að ýsuafli fiskveiðiárið 2022/2023 verði ekki meiri en 62 219 tonn. Veiðiálag stofnsins er yfir kjörskókn (HRMSY) og gátmörkum (HRpa) en fyrir neðan varúðarmörk (HRlim). Stærð hrygningarstofns er yfir aðgerðarmörkum (MSY Btrigger), gátmörkum (Bpa) og varúðarmörkum (Blim). Þetta er hæsta ráðgjöf í í rúman áratug.


Ráðlagt aflamark fyrir 2022/2023 hækkar vegna spáðrar aukningar viðmiðunarstofns (B45cm+) árið 2023. Nýlegir árgangar (2019 og 2020) eru metnir yfir meðallagi og áætlað er að viðmiðunarstofninn stækki þegar þeir byrja að ganga inn í viðmiðunarstofninn á næsta ári. Niðurstöður stofnmælingaleiðangra Hafrannsóknastofnunar gefa til kynna að 2021 árgangurinn verði yfir meðallagi.
Gæði og innbyrðis samræmi stofnmatsins er talið gott. Grunnur ráðgjafar var uppfærður árið 2019 (ICES 2019) þar sem skilgreiningu á hrygningarstofni var breytt. Fiskveiðidánartala og náttúruleg dánartala fyrir hrygningu á stofnmatsári er nú tekin með í reikninginn.
Grunni ráðgjafar var breytt 2019 samhliða endurskoðun á aflareglu sem leiddi til nýrra skilgreininga á viðmiðunarog gátmörkum (ICES, 2019). Íslensk stjórnvöld tóku upp endurskoðaða aflareglu í kjölfarið og er hún í gildi til og með fiskveiðiársins 2023/2024. Á vormánuðum 2021 var aflamark í ýsu aukið um 8 000 tonn og var sú aukning dregin frá aflamarki næsta fiskveiðiárs (2021/2022).

Ufsi, óvissa í stofnmati

Hafrannsóknastofnun og Alþjóðahafrannsóknaráðið leggja til, í samræmi við aflareglu íslenskra stjórnvalda, að afli fiskveiðiárið 2022/2023 verði ekki meiri en 71300 tonn. Veiðiálag stofnsins er yfir aflareglu stjórnvalda (HRMGT) og kjörsókn (HRMSY) en fyrir neðan gátmörk (HRpa) og varúðarmörk (HRlim). Stærð hrygningarstofns er yfir aðgerðarmörkum (MSY Btrigger), gátmörkum (Bpa) og varúðarmörkum (Blim).

Hæst hefur ráðgjöf í ufsa undanfarin á verið 80.588 tonn fiskveiðiárið 2019/2020 en minnst 40.000 tonn fiskveiðiárið 2010/2011.
Stofnmatið í ár bendir til að 17 % minnkunar miðað við matið 2021 og að stofninn hafi verið ofmetinn síðan 2018. Talsverð óvissa er í stofnmati ufsa og er helsta orsökin mikill breytileiki í stofnvísitölum, sem lækkuðu um 30 % milli áranna 2021 og 2022. Við mat á gildandi aflareglu var gert ráð fyrir þessari óvissu.
Úttekt var gerð á grunni ráðgjafar og aflareglu sem leiddi til lítilsháttar breytinga á viðmiðunarmörkum (ICES, 2019). Alþjóðahafrannsóknaráðið komst að þeirri niðurstöðu að aflareglan sem verið hefur í gildi frá 2013 samræmdist varúðarsjónarmiðum og markmiði um hámarksafrakstur til lengri tíma en lagði til breytingar á gátmörkum. Aflareglan hefur verið tekin upp af íslenskum stjórnvöldum og verður í gildi til og með fiskveiðiársins 2023/2024.

Deila: