Lítið af aflaheimildum eftir í Barentshafi

Deila:

Veiðum íslenskra skipa innan lögsögu Noregs í Barentshafi virðist lokið á þessu ári. Aflinn er orðinn 5.257 tonn af kvóta upp á 5.456 tonn. Því eru eftir óveidd um 200 tonn. Svo lítinn skammt tekur ekki að sækja þangað fyrir frystiskipin en hugsanlega gæti ísfisktogari gert þangað einn túr. Björgvin EA á þær aflaheimildir sem eftir eru.

Nú lönduðu fimm skip afla úr Barentshafinu. Örfirisey RE var með mestan afla, 1.574 tonn af þorski, Sólberg ÓF er næst með 1.425 tonn, Blængur NK með 860 tonn, Sólborg RE með 770 tonn og Arnar HU með 625 tonn.

Engar heimildir hafa verið gefnar út vegna veiða íslenskra skipa innan lögsögu Rússlands í Barentshafinu og líklega verður ekkert úr veiðum þar nú, vegna stríðsins í Úkraínu. Í fyrra  sóttu fimm skip rúmlega 4.000 tonn þangað, samkvæmt tvíhliða fiskveiðisamningi Íslands og Rússlands.

Á síðasta ári var kvóti íslensku skipanna í lögsögu Noregs lítill vegna loðnubrests við Ísland. Þá sóttu fimm skip 3.420 tonn í norsku lögsöguna.

Deila: