Laxeldi Háafells í Djúpinu formlega hafið

Deila:

Háafell ehf hóf formlega laxeldi í Ísafjarðardjúpinu í síðasta mánuði. Gauti Geirsson framkvæmastjóri Háafells segir að fyrstu laxaseiðin hafi verið sett út í Vigurálnum þann 16. maí og hefur það gengið vel að hans sögn.

„Hægt og rólega í sumar mun svo seiðunum fjölga og jafnframt munum við koma fyrir fóðurpramma Háafells sem er í þessum töluðu orðum í drætti á leið til Íslands.“

Háafell hefur fengið leyfi fyrir 6.800 tonna eldi á regnbogasilungi og frjóum laxi í Ísafjarðardjúpi. Heimilt er að ala 12.000 tonn af frjóum lax í Djúpinu eftir ákvörðun Hafrannsóknarstofnunar um að nýta ekki 30.000 tonna burðarþolsmati svæðisins í því skyni að vernda laxastofna í Laugardalsá og Langadalsá.

Liggja fyrir umsóknir frá Arctic Fish og Arnarlax um allt að 20.000 tonna eldi af frjóum lax en aðeins 5.200 tonna framleiðsluheimildir eru til ráðstöfunar.
Frétt af bb.is

Deila: