Arctic Fish ver 8 milljörðum í fjárfestingar á árinu

Deila:

Arctic Fish mun verja 8 milljörðum króna til fjárfestinga á Vestfjörðum á árinu. Fjárins var aflað með hlutafjársölu. Í Tálknafirði hefur verið reist fullkomnasta seiðaeldisstöð á landinu og þótt víðar væri leitað. Þar verða um 5 milljónir seiða ræktuð upp í 200 gramma stærð. Stefnt er að því að setja út 4 milljónir seiða á þessu ári.

Þetta koma fram á kynningarfundi sem Arctic Fish hélt í nýjum húsakynnunum í Bolungavík. Vel á annað hundrað manns sótti kynningarfundinn sem var opinn almenningi. Fkallað er um þetta á bb.is

Sven Ove Tveiten forstjóri Arctic Fish ávarpaði gesti og Daníel Jakobsson, framkvæmdastjóri viðskiptastjórnunar kynnti uppbyggingaráformin. Einnig tók Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri í Bolungavík til máls og fagnaði stórhuga áformum fyrirtækisins.

Frá kynningu Arctic Fish. Ljósmynd Kristinn H. Gunnarsson

Í fullkomnasta sláturhús landsins er ráðstafað einnig 4 milljörðum króna og er stefnt að því að það taki til starfa í byrjun næsta árs. Keypt var nýreist hús af Fiskmarkaði Vestfjarða sem er um 1000 fermetrar að grunnfleti. Verið er að stækka það um 1700 fermetra og er viðbyggingin 55 metra löng og 3 metra breið. Verið er að steypa sökkla fyrir viðbyggingunni og er stefnt að því að húsið verði risið í ágúst næstkomandi. Unnt verður að slátra 50 þúsund tonnum af laxi á ári við full afköst á einni 8 klst vakt.

Hjá fyrirtækinu starfa nú 62 og fjölgaði þeim um 20 á síðustu 12 mánuðum. Gert er ráð fyrir að bæta við 40 starfsmönnum á næstu 12 mánuðum, þar af verða 25-30 manns sem hefja störf við sláturhúsið þegar það fer í gang.

Arctic Fish hefur leyfi fyrir framleiðslu á 21.800 tonnum af frjóum laxi á Vestfjörðum og 5.300 tonnum af regnbogasilungi. Umsókn fyrirtækisins um eldi á 10.100 tonnum af laxi í Ísafjarðardjúpi er til meðferðar hjá opinberum stofnunum.

Á þessu ári er gert ráð fyrir að slátrað verði 11.500 tonnum af laxi. Á næsta ári aukist magnið upp í 16.000 tonn og árið 2024 verði það 24.000 tonn eða liðlega tvöfalt meira en á þessu ári.

Deila: