Makríl vinnsla hafin

Deila:

Snemma í morgun kom Börkur NK til Neskaupstaðar með tæplega 750 tonn af makríl sem veiddist í Smugunni. Vinnsla hófst þegar í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar.

Ólafur Gunnar Guðnason, stýrimaður á Berki, segir í samtali á heimasíðu Síldarvinnslunnar, að aflinn hafi fengist í átta holum og um sé að ræða ágætan 440 -470 gramma makríl. Þá segir hann að aflinn hafi verið töluvert síldarblandaður. Ólafur segir að íslenskum skipum hafi verið að fjölga mikið í Smugunni síðustu daga og eins séu færeysk skip á sömu slóðum. Aflinn hafi ekki verið mikill og verulegur tími fari í það að leita.

Í fiskiðjuverinu var allt farið að snúast í morgunsárið og hugur í mönnum. Það eru ávallt tímamót þegar ný vertíð hefst. Fiskurinn þykir hinn fallegasti og er hann nú í upphafi hausaður, slógdreginn og síðan frystur.
Börkur NK að landa fyrsta makrílfarmi vertíðarinnar. Ljósm. Smári Geirsson

Deila: