Á handfærum í hálfa öld

Deila:

Maður vikunnar að þessu sinni er trillukarl, sem róið hefur með handfæri í fimm áratugi. Hann var 10 ára, þegar hann byrjaði á handfærunum. En hann er líka menntaður kennari og byggingafræðingur og rekur kaffihús ásamt eiginkonu sinni.

Nafn.

Lúðvík Smárason.

Hvaðan ertu?

Ég bý á Rifi.  Fæddur á Hellisandi 1961.   Hef búið hérna á Nesinu alla tíð að undanskildum þeim tíma sem ég hef verið í námi.   Fyrst í Menntaskólanum á Akureyri síðan í Kennaraskólanum og svo í Danmörku í byggingafræði í 4 ár. 

Fjölskylduhagir?

Konan mín heitir Anna Þóra Böðvarsdóttir og er fædd og uppalin í Keflavík . Við eigum einn son Smára Lúðvíksson og hans kona er Sigurdís Sveinbjörnsdóttir og búa þau á Húsavík.   Þau eiga tvær dætur. 

Hvar starfar þú núna?

Í dag starfa ég aðallega sem trillusjómaður og er á handfærum.  Við eigum okkar eigin „kvóta“ sem er um 90 tonn upp úr sjó og látum við það nægja.  Ekkert er farið á svokallaðar strandveiðar.   Báturinn okkar heitir Kári III SH 219 og er sómabátur 10 metra langur.  Við hjónin rekum líka Kaffihús á Hellissandi sem heitir Gilbakki.  Yfir vetrartímann er ég dálítið að teikna, ýmist viðbyggingar eða breytingar, margar smávægilegar, fyrir fólk hérna í Snæfellsbæ.  

Hvenær hófstu vinnu við sjávarútveg?

Ég byrjaði ungur að fara á handfæri sennilega er fyrsti róðurinn um 1970-71, man það ekki alveg, allavega var ég um 10 ára aldurinn.  Segja má að ég hafi ekki misst úr eitt einasta ár á færum að sumri síðan þá.

Hvað er það skemmtilegasta við að vinna við íslenskan sjávarútveg?

Það skemmtilegasta við þetta trillustúss er spenningurinn að byrja á hverju vori. Loðna um allan sjó og lífið sem fylgir vorkomunni. 

En það erfiðasta?

Það erfiðasta er sennilega þegar tíðarfarið er slæmt . Reyna að fara á sjó vitandi að dagurinn verður óttalegt bras í kulda og brælu og því fylgir þá lítið fiskirí.  

Hvað er það skrýtnasta sem hefur lent í í störfum þínum?

Ég man nú svo sum ekki í svipinn eftir neinu skrýtnu  sem hefur hent en kannski eftirminnilegu svosem þegar við vorum að fá stórar lúður hér áður.  Því gat fylgt mikil spenna.

Hver er eftirminnilegasti vinnufélagi þinn?

Eftirminnilegir vinnufélagar eru í mínu tilfelli kannski ekki margir þar sem við höfum alltaf verið nánasta fjölskylda að róa saman,  Pabbi (Smári Lúðvíksson),  Alexander og Örn bræður mínir.   Aftur á móti eru nokkrir trillukarlar sem réru hérna frá Rifi á þeim tíma sem við vorum að byrja til sjós mjög eftirminnilegir.   Þetta voru karlar eins og Sigurður Runólfsson á Klukkutind , Guðmundur á Hamri, Ólafur Magnússon á Létti og Skúli á Ásnum.   

Hver eru áhugamál þín?

Áhugamál mín eru eins og nærri má geta trillulífið . Svo að gera eins fallegt í kringum mig eins og ég get og hef tíma til. Smíðar hafa líka átt stóran sess í lífinu og hef ég til dæmis byggt sjálfur ,með góðum stuðningi pabba, þau tvö hús sem ég á í dag.

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn?

Uppáhalds maturinn minn. Góð spurning, Sennilega fiskur eldaður á hina ýmsustu vegu.

Hvert færir þú í draumafríið?

Draumafríð er sennilega skíðaferð til Ítalíu. 

Deila: