Sjávarútvegsskóli unga fólksins í Neskaupstað

Deila:

Í síðustu viku starfaði Sjávarútvegsskóli unga fólksins í Neskaupstað. Það er Háskólinn á Akureyri sem hefur umsjón með skólahaldinu en það fer fram allvíða á landinu. Alls sóttu 12 nemendur skólann í Neskaupstað en þeir starfa allir í Vinnuskóla Fjarðabyggðar. Það voru Magnús Víðisson, aðjúnkt við Háskólann á Akureyri, og Katla Svavarsdóttir, nemandi í sjávarútvegsfræðum, sem sáu um skólahaldið í Neskaupstað.

Heimasíða  Síldarvinnslunnar ræddi stuttlega við Magnús og spurði fyrst hvort nemendurnir væru áhugasamir. „Já, ég held að megi segja það. Þetta er skemmtilegur hópur. Við reynum líka að gera námið áhugavert og líflegt. Auðvitað er lögð áhersla á að fræða nemendur um allt sem lýtur að sjávarútvegi og þá bæði veiðum og vinnslu. Einnig er lögð áhersla á hin samfélagslegu áhrif sjávarútvegsins og meðal annars fjallað um hina fjölbreyttu afleiddu starfsemi. Við leggjum áherslu á að fara með nemendur í heimsóknir og hér í Neskaupstað heimsóttum við til dæmis fiskiðjuver Síldarvinnslunnar og Hampiðjuna auk þess sem Björgunarsveitin Gerpir tók á móti okkur. Björgunarsveitarmenn buðu hópnum til dæmis í bráðskemmtilega og fróðlega siglingu til Hellisfjarðar. Til að lífga upp á kennsluna höfum við útbúið borðspil og eins efnum við til spurningakeppni og framkvæmum tilraunir. Þá kynnast nemendur skynmati á fiski. Í lokin er svo efnt til dýrindis pizzuveislu,“ segir Magnús.

Sjávarútvegsskóli unga fólksins á rætur sínar í Neskaupstað. Árið 2013 kom Síldarvinnslan á fót skóla sem bar nafnið Sjávarútvegsskóli Síldarvinnslunnar og þegar starfsemin breiddist út breyttist einnig nafn skólans. Um tíma hét hann Sjávarútvegsskóli Fjarðabyggðar síðan Sjávarútvegsskóli Austurlands. Á árinu 2016 hóf Háskólinn á Akureyri að annast skólahaldið og þá var hann nefndur Sjávarútvegsskóli unga fólksins. Nú er boðið upp á nám í Sjávarútvegsskólanum á Austurlandi, Norðurlandi og í Reykjavík. Þá hefur verið komið á fót fiskeldisskóla sem býður upp á kennslu á Djúpavogi og á sunnanverðum Vestfjörðum og nú stendur fyrir dyrum að koma einnig á fót sjávarlíftækniskóla.

Til gamans skal þess getið að á þessu ári útskrifaðist Norðfirðingurinn Þorvaldur Marteinn Jónsson sem sjávarútvegsfræðingur frá Háskólanum á Akureyri en hann var einmitt í hópnum sem stundaði nám í Sjávarútvegsskóla Síldarvinnslunnar þegar hann tók til starfa árið 2013.

Ljósmyndir Smári Geirsson.

Deila: