Tillögur Svandísar leggjast illa í strandveiðimenn

Deila:

Tillögur Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra um afnám svæðaskiptingar kvóta í strandveiðum leggjast illa í smábátasjómenn. Kallað er eftir fjörutíu og átta daga veiðikerfi á hvern bát til að koma í veg fyrir að sjómenn fari á veiðar í brælu og vondu veðri. Um þetta er fjallað á ruv.is

Vill laga 48 daga veiðikerfið

Kerfið var sett á 2018 þar sem þáverandi kerfi, með svæðaskiptum kvóta, þótti ekki virka að sögn Arnar Pálssonar, framkvæmdastjóra Landssambands smábátaeigenda. Hann segir að lagasetning um fjörutíu og átta daga veiðidaga hafi reynst vel en auðvitað megi laga kerfið á einhvern hátt.

„En miðað við það sem ég les, að þá er ekki annað að sjá að hún ætli að horfa frá 48 daga kerfinu og þá óttast ég að það taki það sama við eins og við vorum að koma í veg fyrir með þessu kerfi að allir flykkist á sjó strax í upphafi hvers mánaðar og þá er voðinn vís,“ segir Örn.

Segir veiðikerfið hafa kostað mannslíf

Oddur Örvar Magnússon, smábátasjómaður, sem gerir út frá Þórshöfn segir þessar breytingar ekki laga neitt. Hann segir fjörutíu og átta daga veiðikerfi á hvern bát bestu lausnina og það sem stjórnmálamenn hafi talað um fyrir kosningar bæði 2017 og 2020.

Og sá bátur fái að róa þegar hann vill og þegar hann getur eftir veðri og fiskgengd. Væri þessu kerfi komið á myndu allar ólympísku veiðar vera úr sögunni sem hafa nú þegar kostað mannslíf á þessum strandveiðum,“ segir Oddur.

En af hverju heldurðu að sé ekki hlustað á þetta?

„Stjórnmálamenn koma og fara og það eru einhverjir sem halda að þeir séu með lausnir sem eru kannski ekki varanlegar lausnir. Það sem ekki er hægt að ráða við í þessu það er veður og fiskgengd. Eins og nú er ég staddur á Þórshöfn og það er bara skítabræla og það er fullt af bátum á sjó sem ættu ekki að vera á sjó,“ segir Oddur.

 

Deila: