Aldrei hefur hærra hlutfall þorskveiðiheimilda farið til strandveiða

Deila:

Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra hefur undirritað breytingu á reglugerð um veiðar í atvinnuskyni. Við breytinguna aukast aflaheimildir til strandveiða um 874 tonn af þorski sem fengust í skiptum fyrir heimildir á makríl á skiptimarkaði, 50 ónýtt tonn sem voru færð frá frístundaveiðum og 150 ónýtt tonn vegna línuívilnunar. Samtals er því 1.074 tonnum bætt við strandveiðipottinn.

Með þessu hækkar hlutfall strandveiða af leyfilegum heildarafla þorsks upp í rúm 5% og hefur ekki svo stórum hluta leyfilegs heildarafla þorsks áður verið ráðstafað til strandveiða.

Fjórtánda strandveiðisumarið frá því strandveiðum var komið á stendur nú yfir og er þessi ráðstöfun matvælaráðherra liður í aðgerðum til að festa strandveiðar betur í sessi enda skipta strandveiðar sköpum fyrir margar fjölskyldur í landinu.

Einnig hefur matvælaráðaherra komið á þeirri breytingu til hagræðingar fyrir strandveiðisjómenn að Fiskistofa mun sjálfkrafa fella strandveiðileyfi úr gildi þegar strandveiðar verða stöðvaðar með auglýsingu í Stjórnartíðindum.

Því er ekki er lengur þörf á að óska eftir niðurfellingu strandveiðileyfis til Fiskistofu 20. dag mánaðar áður en til stóð að hætta veiðum.

Deila: