Makrílleiðangur hafinn

Deila:

Rannsóknaskipið Árni Friðriksson lét úr höfn 4. júlí til þátttöku í árlegum alþjóðlegum leiðangri. Eitt af meginmarkmiðum leiðangurs er að meta magn og útbreiðslu makríls, kolmunna og norsk-íslenskrar síldar í norðaustur Atlantshafi að sumarlagi. Í leiðangrinum verður einnig aflað gagna sem nýtast við vöktun og fjölbreyttar rannsóknir á ýmsum þáttum vistkerfisins frá frumframleiðni sjávar til útbreiðslu hvala.

Þetta er þrettánda árið í röð sem Hafrannsóknastofnun tekur þátt í leiðangrinum ásamt skipum frá Noregi, Færeyjum, Grænlandi og Danmörku. Yfirferðasvæði Árna er fyrir norðan, sunnan og vestan landið ásamt svæði í grænlenskri landhelgi fyrir norðan Ísland (mynd með frétt). Svæðið fyrir austan land verður dekkað af norsku og færeysku skipi. Líkt og áður er hægt að fylgjast með staðsetningu og feril Árna á slóðinni: https://skip.hafro.is/

Leiðangurinn á Árna stendur í 19 daga og verða sigldar tæplega 3300 sjómílur eða um 6100 km og 45 yfirborðstogstöðvar verða teknar á fyrirfram ákveðnum stöðum. Um borð eru 7 vísindamenn og 17 manna áhöfn.

 

Deila: