Líklega til hagsbóta fyrir Grindavík

Deila:

„Þetta kom okkur mjög á óvart. Við vissum ekkert af þessu fyrr en það kom í fréttum. Nú hefur Pétur Pálsson, framkvæmdastjóri Vísis haft samband og hann hefur fullvissað mig um það starfsemi félagsins í Grindavík verði efld og hefur boðið mér á fund til að fara yfir málin,” segir Hörður Guðbrandsson, formaður Verkalýðsfélags Grindavíkur, í samtali við Auðlindina.

Kaup Síldarvinnslunnar í Neskaupstað á öllu hlutafé Vísis í Grindavík, hafa vakið mikla athygli, en í flestum tilfellum eru viðbrögðin jákvæð. Hörður segir að líklega sé þetta til hagsbóta fyrir Grindavík og Grindvíkinga. Um 200 starfsmenn Vísis séu í Verkalýðsfélagi Grindavíkur og því sé Vísir lykilfyrirstæki í starfsemi félagsins. Almennt hafi samskiptin við Vísi verið góð í gegnum tíðina og hann ætli að treysta því að þannig verði það áfram, þrátt fyrir breytingar sem séu í farvatninu.

„Ég vænti þess að þetta skýrist enn frekar á fundi með Vísismönnum sem mér hefur verið boðið á,“ segir Hörður.

Haft hefur verið eftir Einari Hannesi Harðarsyni, formanni Sjómanna- og vélstjórafélagi Grindavíkur, að hann búist ekki við miklum breytingum vegna þessa.

Deila: