Markmið að tryggja öryggi áhafna og farþega með nýjum lögum
Ný heildarlög um áhafnir skipa voru nýlega samþykkt á Alþingi en lögin taka gildi 1. janúar 2023.1 Markmið laganna er að tryggja öryggi áhafna íslenskra skipa og farþega, efla varnir gegn mengun frá skipum og tryggja meðal annars skilvirka menntun og þjálfun áhafna, skírteinisútgáfu, lágmarksmönnun, lögskráningu og bæta vinnuskilyrði áhafna. Lögunum er einnig ætlað að stuðla að jöfnu aðgengi kynjanna að menntun, þjálfun og störfum um borð í íslenskum skipum.
Þá veita lögin nægilegar heimildir til að innleiða þær kröfur sem leiðir af skuldbindingum samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og öðrum alþjóðlegum skuldbindingum Íslands á sviði sjóréttar er lúta að áhöfnum skipum. Með lögunum er lagaumhverfi um áhafnir skipa einfaldað þannig að ein heildarlög koma í stað fernra laga. Þetta eru lög um bryta og matreiðslumenn í farskipum og fiskiskipum, nr. 50/1961, lög um áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa, nr. 76/2001, lög um áhafnir íslenskra fiskiskipa, varðskipa, skemmtibáta og annarra skipa, nr. 30/2007, og lög um lögskráningu sjómanna, nr. 35/2010.
Helstu breytingar með lögunum
- Erlend skip. Auk allra íslenskra skipa ná lögin nú einnig til erlendra skipa sem notuð eru í atvinnuskyni á íslensku innsævi í 30 daga samfleytt, eða samtals 90 daga á ársgrundvelli. Eðlilegt er talið að öryggiskröfur um íslensk skip eigi við um þessi skip. Það gildir t.a.m. um skírteinakröfur, lágmarksmönnun, vaktstöðu, vinnu- og hvíldartíma og vinnuskilyrði. Þetta gæti t.d. átt við um áhafnir erlendra þjónustuskipa laxeldis, dýpkunarskipa, dráttarskipa, farþegabáta og farþegaskipa í útsýnis- og skoðunarferðum.
- Verkefni nefnda til Samgöngustofu. Undanþágunefnd og mönnunarnefnd skipa lagðar niður og verkefni þeirra færð til Samgöngustofu, en Samgöngustofa hefur undanfarin ár annast skrifstofuhald fyrir nefndirnar.
- Lágmarksmönnun. Í frumvarpi til laganna, sem ráðherra mælti fyrir í vetur, var lagt til að kveðið væri skýrar á um lágmarksmönnun réttindamanna á smáskipum að teknu tilliti til útivistar þeirra, þ.e. skipa sem eru 15 metrar og styttri að skráningarlengd. Markmiðið væri að fylgt verði svokallaðri 14 klst. reglu á grundvelli 64. gr. sjómannalaga (nr. 35/1985). Það þýðir að þegar útivist þeirra færi yfir 14 klst. skuli ávallt vera tveir skipstjórnarmenn um borð með tilskilin réttindi. Ekki var um nýmæli að ræða en mikilvægt talið að kveðið væri skýrt á um þetta í lögum.
- Bráðabirgðaákvæði. Í meðförum þingsins var ákvæði til bráðabirgða samþykkt sem heimilar hásetum, sem hafa að baki siglingatíma í tólf mánuði á síðastliðnum þremur árum, að gegna stöðu stýrimanns sé útivist skips styttri en 19 klst. Gildir ákvæði þetta til 1. júlí 2024.
- Eigandi smáskips. Nýtt ákvæði kveður á um að þegar eigandi smáskips (skv. skipaskrá) er lögskráður sem skipstjóri og smáskipavélavörður og er einn um borð, þurfi ekki stýrimann eða annan smáskipavélavörð þótt útvist fari fram yfir 14 klst.
- Matsveinar eða brytar. Kröfum um að borð séu matsveinar eða brytar er breytt þannig að miðað verður við útivist skips en ekki stærð þess eins og gildandi lög kveða á um.
- Jafnrétti. Við smíði lagafrumvarpsins var horft til áhrifa þess á jafnrétti kynja til að draga úr mun á þátttöku kynja í siglingum og sjósókn. Með stjórnvaldssektum er m.a. tryggt betur að skip sem mönnuð eru miðað við 14 tíma reglu haldi sig innan þess tímaramma. Talið að það auki líkur á að konur sinni störfum um borð í slíkum skipum. Þá var sérstaklega lögð áhersla á að draga úr karllægni í orðfæri laganna. Þannig er orðið „fiskari“ notað í stað „fiskimanns“ og „útgerð“ í stað „útgerðarmanns“.
- Stjórnvaldssektir. Með lögunum fá Landhelgisgæsla Íslands og Samgöngustofa heimild til að leggja á stjórnvaldssektir fyrir brot á tilteknum ákvæðum laganna og reglum samkvæmt þeim.
Víðtækt alþjóðlegt regluverk er í gildi um áhafnir skipa sem byggir á samningum Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar og Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, sem og ákvæðum gerða sem teknar hafa verið upp í EES-samninginn. Nýju áhafnalögin taka tillit til allra þessara alþjóðlegu skuldbindinga.