Þetta vonandi verður til góðs fyrir bæinn

Deila:

„Það sem skiptir mestu máli fyrir bæjarfélagið og íbúana er að starfsemin þarna haldi áfram hjá þessu öfluga og góða fyrirtæki sem Vísir er, og verður núna dótturfélag,“ segir Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík. Þetta segir hann í samtali á mannlif.is, þar sem rætt er við hann um kaup Síldarvinnslunnar á Vísi hf. í Grindavík.

„Það er það sem auðvitað skiptir bara öllu máli fyrir okkur og miðað við það sem við heyrum, og komið hefur fram í fréttum líka, er að það standi til að efla starfsemina á svæðinu, meðal annars með fiskeldi á landi. Ef þau áform ganga eftir og fyrirtækið heldur áfram að sinna byggðarlaginu og landinu í heild sinni, eins og gert hefur verið, þá getum við svo sem ekki gert neinar athugasemdir, enda hefur bærinn enga aðkomu að þessu máli á nokkurn hátt.“

Treystir þú því að þetta gangi eftir?

„Það verður tíminn auðvitað bara að leiða í ljós, hvernig framtíðin mun spilast áfram en ég hef enga ástæðu til þess á þessu stigi, fyrirfram, að vantreysta því sem sagt hefur verið og þeim áformum sem uppi eru. Þetta er auðvitað bara alveg nýtt fyrir okkur. Ég frétti þetta fyrst í gær, þannig að þetta kemur svona flatt upp á okkur, en við erum svona smám saman að fá frekari upplýsingar hjá stjórnendum fyrirtækisins og nýjum eigendum, og gömlu eigendunum líka. Þeir eru fullir bjartsýni, þannig að við verðum bara að vona að það rætist allt saman.“

Finnst þér þetta vera skellur fyrir bæjarbúa í Grindavík?

„Nei, ég held bara að öll óvissa geti verið þess valdandi að fólk óttast kannski að eitthvað alvarlegt eða neikvætt kunni að vera framundan. En við höfum engar forsendur til þess að ætla að svo verði. Við verðum að treysta því bara að þessi áform standist. Það er ekki verið að gera þetta nema trúlega vegna þess að fyrirtækið er bara mjög sterkt, með allra öflugustu útgerðarfyrirtækjum á landinu og eitt allra tæknivæddasta fiskvinnslufyrirtæki landsins að auki. Þannig að það þykir örugglega mikill fengur í því að fá þetta fyrirtæki inn í þetta öfluga fyrirtæki sem Síldarvinnslan er.“

Fannar segir líklegt að ástæðan fyrir kaupunum séu góðar aðstæður í Vísi og Grindavík, en bærinn sé til að mynda vel staðsettur landfræðilega. „Tækjabúnaður sem þar er til staðar er með því allra besta sem fyrirfinnst. Það er hvergi meiri þorskafla landað í öðrum höfnum, annarsstaðar á landinu, heldur en í Grindavík, þannig að við erum mjög öflugt sveitarfélag og vonum að það verði bara áfram.“

Nú hefur Samherji ákveðna sögu þegar kemur að loforðum sem þessum.

„Já, já. Fólk getur svo sem haft sínar hugmyndir um það hvernig þetta kunni að gerast hér. Við verðum bara að láta tímann skera úr um það, við höfum engar aðrar forsendur. Bærinn mun bara leggja sitt af mörkum, framvegis sem hingað til, til þess að reyna að gera aðstæður sem allra bestar hvað varðar sjávarútvegsfyrirtæki, bæði varðandi landvinnu og ekki síst höfnina okkar, sem er mjög góð nú þegar, en við höfum verið að vinna að því undanfarin mörg ár og munum gera enn betur í þeim efnum. Við höfum átt í góðum viðræðum við Vegagerðina um það og munum halda því áfram, og kannski bara með auknum krafti þegar það liggur fyrir að það geti vel verið að starfsemin þarna verði efld og fleiri skip sem landa. Auðvitað vonumst við til þess að það verði.

Hefur þú sjálfur rætt við einhvern frá Síldarvinnslunni og Samherja?

„Nei. Ég frétti þetta bara frá eigendum Vísis í gær, sem höfðu samband við mig og bæjaryfirvöld. Þannig að við höfum ekki rætt við nýja eigendur nema þá óformlega og síðan er held ég tíu mánaða bið eftir því að Samkeppniseftirlitið muni staðfesta þessi kaup. Þannig að það er ekkert sérstakt að gerast. Það eru sömu lykilstjórnendur hjá Vísi og verið hefur, og sami forstjóri sem verður áfram og mikill mannauður þarna á svæðinu. Þannig að Vísir verður, eins og hefur komið fram, dótturfélag og heldur bara sínu striki. Framkvæmdastjórinn verður þarna áfram og allir lykilstjórnendur og þarna eru einhver 250 ársígildi starfsmanna. Það er engin breyting þessa dagana.“

„Þetta er bara nýtt fyrir okkur og við höfum engar forsendur til annars en að bara treysta því og trúa sem sagt hefur verið um áframhaldandi uppbyggingu. Ég held það og trúi því. Þetta vonandi verður til góðs fyrir bæinn,“ segir Fannar að lokum.

 

Deila: