Vantaði ufsa á öllum stöðum

Deila:

,,Það er oft þannig að það sem er efst á óskalistanum er vandveiddast. Núna snýst allt um að veiða ufsa en því miður virðist ekki vera mikið af honum á algengustu veiðislóðum. Við leituðum fyrir okkur suðvestur af landinu og fórum einnig norður á Vestfjarðamið. Á öllum stöðum vantaði ufsa í góðu magni en það var lítið mál að veiða þorsk og gullkarfa hefðum við fengið í góðu magni ef við hefðum borið okkur eftir honum.”

Þetta segir Jóhannes Ellert Eiríksson (Elli), skipstjóri á ísfisktogaranum Viðey RE, en skipið hefur hafið veiðar á ný.

Að sögn Ella slapp veiðiferðin fyrir horn, eins og hann orðar það, en heildaraflinn í veiðiferðinni var um 160 tonn. Það þætti einhverjum gott, sérstaklega vegna þeirra takmarkana sem mönnum eru settar nú þegar hillir undir lok kvótaársins.

Að sögn Ella hóf hann veiðiferðina á Fjöllunum, SV af Reykjanesi.

,,Þar var smávegis af ufsa. Við héldum svo norður á Vestfjarðamið og byrjuðum á grunnslóðinni vestur af Patreksfirði. Þar var bara þorskur. Við skruppum því norður á Hala til að leita að grálúðu djúpt úti í kantinum. Aflinn var hins vegar tregur og við fórum því aftur suður á Fjöllin. Við sneiddum hjá gullkarfanum og aflinn var aðallega þorskur og svo fengum við smávegis af ufsa,” segir Elli en af þeim 160 tonnum, sem veiðiferðin skilaði, var uppistaða aflans þorskur og ufsi kom þar næstur á eftir. Minna var af öðrum tegundum.

 

Deila: