Vinnslan keyrð á fullu allan tímann

Deila:

Frystitogarinn Örfirisey RE kom til hafnar í Reykjavík í síðustu viku úr sinni fyrstu veiðiferð eftir sjómannadaginn. Arnar Haukur Ævarsson, skipstjóri, segir túrinn hafa verið nokkuð hefðbundinn. Aflabrögð voru góð, vinnslan var keyrð á fullu allan tímann og aflinn upp úr sjó er áætlaður um 1.100 tonn.

,,Við byrjuðum í Skerjadjúpinu og fengum þar góðan gulllax- og djúpkarfaafla. Það hefur verið óvenjulega mikið af djúpkarfa í ár í samanburði við undanfarin ár og við höfum einnig fengið mikið af gulllaxi. Sá fiskur er hausaður og heilfrystur líkt og karfinn en það veiðist jafnan eitthvað af karfa með gulllaxinum. Vinnslan er til þess að gera einföld, þótt hún krefjist vissulega mikils af áhöfninni, og það fóru alveg 70 tonn í gegnum vinnsluna á sólarhring,” segir Arnar í samtali á heimasíðu Brims, en hann segist einnig hafa farið til að leita af ufsa í veiðanlegu magni á Fjöllunum.

,,Við fundum engan ufsa og því var ákveðið að fara inn til Reykjavíkur í millilöndun 23. júní áður en haldið yrði norður á Vestfjarðamið.”

Eftir millilöndunina var stefnan norður á Látragrunn.

,,Þar var mjög góð ýsu- og þorskveiði og reyndar fengum við of mikið af þorski með ýsunni. Því var híft og ég ákvað að reyna næst í Pollinum út af Ísafjarðardjúpi. Þar fengum við fína ýsuveiði. Við fórum svo á Deildargrunn. Þar var mjög góð ýsuveiði og við fengum mikið af stórri og góðri ýsu eða um og yfir þriggja kílóa fiski,” segir Arnar en hann segir menn einnig hafa verið vakandi fyrir því hvort ufsa væri einhvers staðar að hafa. Því miður hafi ufsinn brugðist að þessu sinni.

,,Við fórum síðan aftur suður og lukum veiðiferðinni á að veiða gulllax og djúpkarfa í Skerjadjúpinu. Það gekk vel, segir Arnar en hann neitar því ekki að nú þegar komið er fram á sumar sé farið að þrengjast um kvótastöðuna í flestum fisktegundum. Fá skip standi þó betur að vígi en Örfirisey varðandi gullkarfakvótann en menn verði að vanda sig m.t.t. annarra tegunda.

,,Okkar helstu vandkvæði núna tengjast stríðinu í Úkraínu. Ef það væri ekki skollið á ættum við nú að vera að byrja veiðar í rússnesku lögsögunni í Barentshafi,” segir Arnar Haukur Ævarsson.

 

Deila: