Velta IceMar jókst um fjórðung

Deila:

Velta sjáfarafurðarfyrirtækisins IceMar í Keflavík jókst um 24% á milli ára og nam 3,7 milljörðum króna á síðasta ári. Rekstrarhagnaður félagsins jókst um 28% frá fyrra ári og nam 164 milljónum. Hagnaður eftir skatta var 133 milljónir árið 2021. Frá þessu er grein á vb.is

IceMar flytur út sjávarafurðir, að mestu til Norður-Ameríku, Bretlands og Spánar. Frystar afurðir vógu um 80% veltunnar og ferskar afurðir 20%. Fyrirtækið segir að fyrstu sex mánuðir þessa árs gefi til kynna töluverða veltuaukningu milli áranna 2021 og 2022.

Eignir IceMar voru bókfærðar á 528 milljónir í lok síðasta árs þar af voru viðskiptakröfur um 395 milljónir. Eigið fé var 110 milljónir.

IceMar var skipt upp í byrjun síðasta árs og tók móttökufélagið Kóngsbakki við tilteknum eignum og lausu fé sem var til staðar á uppskiptingadegi. Kóngsbakki, sem er í eigu hjónanna Gunnars Örlygssonar og Guðrúnar Hildar Jóhannsdóttur, fjárfesti í Play í byrjun árs og var kominn með yfir 2% hlut í flugfélaginu í febrúar síðastliðnum en minnkaði aftur við hlut sinn í apríl.

Sjá einnig: Selur IceMar og AG Seafood

Gunnar stofnaði IceMar árið 2003 og hefur félagið verið í eigu hans og Guðrúnar. Í lok síðasta árs undirrituðu þau samkomulag um sölu á 60% hlut í IceMar til breska fiskvinnslufyrirtækisins New England Seafood International (NESI), dótturfélags Sealaska. Kaupin gengu eftir í byrjun þessa árs. NESI keypti einnig stóran hlut í AG Seafood í Sandgerði, sem Gunnar stofnaði ásamt meðeigandanum Arthur Galvez árið 2008. Gunnar stýrir báðum fyrirtækjum áfram.

 

Deila: