Strandveiðum lokið

Deila:

Strandveiðitímabilinu lauk í dag samkvæmt upplýsingum frá Fiskistofu sem sendir út tilkynningu um stöðvun veiða. Veiðarnar hafa aldrei gengið betur og framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda reiknar með því að þær skili um fimm milljörðum króna. Það er fjórðungi meira en í fyrra. Kvótinn í ár var rúmlega 11 þúsund tonn. Frá þessu er greint á ruv.is

Yfir 700 útgerðir stunduðu strandveiðar í sumar og það verður ekki annað sagt en að þær hafi gengið vel. „Jú heilt yfir hafa veiðarnar gengið vel sérstaklega fyrir vestan, norðan og fyrir sunnan. Afli hefur aldrei verið jafn mikill og þá hefur þorskaflinn á hverja veiðiferð aukist um 6% milli ára”, segir Örn Pálsson framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda. Gott verð hefur fengist fyrir aflann, rúmlega 400 krónur fyrir þorskinn.
„Við erum bjartsýnir að aflaverðmætið nái fimm milljörðum króna núna. Í fyrra nam aflaverðmætið 4 milljörðum og þetta skilar sér því í auknum tekjum fyrir hafnir og þjónustuaðila í byggðarlögunum,“ segir Örn.

Strandveiðibátar máttu veiða tólf daga í mánuði frá maí til og með ágúst.
Sjómenn segja nægan fisk í sjónum og vilja fá að stunda veiðar í 48 daga eins og reglugerðin segir til um. „Já við erum ekkert í vafa um það og það sýnir sig best hver aukningin er á hverja veiðiferð. Það er meira af þorski í ár en í fyrra“. Örn segist hafa orðið fyrir vonbrigðum hve lítið kom út úr skiptimarkaði á loðnu og makríl. „Þessi skipti skiluðu ekki eins miklum þorski inn í strandveiðikerfið og vonast var eftir. Okkur finnst með öllu óþolandi að strandveiðarnar séu háðar því eða duttlungum uppsjávarflotans“, segir Örn Pálsson framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda.

 

Deila: