Ýsa í karrý og kókosmjólk

Deila:

Nú fáum við okkur ýsu með austurlensku ívafi. Þetta er uppskrift sem líklega er ættuð frá Indlandi, nema auðvitað ýsan. Þeir nota aðrar fisktegundir en við. Þetta er tiltölulega auðveldur réttur í matreiðslu þó innihaldið sé fjölbreytt. Uppskriftin er ætluð fyrir fjóra.

Innihald:

600g fersk ýsa, roð- og beinlaus skorin í hæfilega munnbita.

Safi úr einni límónu

1 tsk. túrmerik

3 msk. matarolía

1 stór laukur smátt saxaður

1 msk. rifinn engifer

4 geirar af hvítlauk, skornir í þunnar sneiðar

2 tsk. malað cumin

2 tsk. malaður kóríander

1 tsk. karrýmauk

½-1 tsk.  chilli flögur

2 msk. tómatpúrra

300g soðnar gulrætur og sætar kartöflur í sneiðum og teningum

200ml kókoshnetumjólk

200ml. vatn

1 grein af ferskum kóríander, söxuð

salt

nýmalaður svartur pipar

hrísgrjón

Aðferð:

Setjið ýsubitana í skál og kryddið með salti og pipar. Bætið helmingnum af límónusafanum og helmingnum af túrmerikinu út í og blandið öllu vel saman. Leggið til hliðar.

Hitið olíu á pönnu á meðal hita og mýkið laukinn í olíunni. Bætið þá engifer, hvítlauk, ½ tsk. salti, því sem eftir er af túrmeriki og öðru kryddi út á og látið malla í 2 mínútur. Bætið þá tómatpúrrunni út í og hrærið vel saman. Bætið þá gulrótum og sætum kartöflum á pönnuna og hrærið vel saman.

Bætið loks kókosmjólkinni, vatninu og karrýmaukinu út á pönnuna og látið malla í 8-10 mínútur eða þar til sósan er byrjuð að þykkna.

Færið nú ýsubitana út á pönnuna og látið malla í nokkrar mínútur, eða þar til fiskurinn er eldaður í gegn. Takið pönnuna af hellunni og hrærið því sem eftir er af límónusafanum út í .

Berið fram með soðnum hrísgrjónum og brauði að eigin vali.

 

Deila: