Ósatt að við sinnum ekki ufsanum

Deila:

,,Þegar fiskifræðingar birta það í opinberum gögnum að skipstjórar sinni ufsanum ekkert þá fýkur í mig. Það er ósatt. Ég þekki ekki þann togaraskipstjóra sem ekki er upptekinn af því að leita að ufsa í veiðanlegu magni.”

Þetta segir Eiríkur Jónsson, skipstjóri á ísfisktogaranum Akurey AK í samtali á heimasíðu Brims. Eiríkur var um borð í síðustu veiðiferð sem hann segir hafi gengið ágætlega. Skipið var sólarhring skemur að veiðum en ætlað var og aflinn var um 160 til 170 tonn.

,,Við byrjuðum sunnarlega í Víkurálnum. Þar var blandaður afli til að byrja með en svo fengum við bara karfa. Það var því híft og við fórum norður á Þverálshorn. Þar var dágóð ufsaveiði en uppistaða aflans var þó þorskur. Ætli ufsaveiðin hafi ekki verið 10 til 30%, misjafnt eftir holum. Það var eftirtektarvert að ufsinn var mjög stór og góður á meðan þorskurinn var í smærri kantinum.”

Á leiðinni aftur suður tóku Eiríkur og hans menn eitt hol á Halanum og höfðu 10 til 11 tonn af karfa upp úr krafsinu.

,,Við enduðum svo á grunnslóðinni út af Patreksfirði, nánar til tekið á Kögurgrunni. Þar var mokveiði af þorski og það hefði verið auðvelt að fá meira,” segir Eiríkur Jónsson en hann segir að nú þegar eftir sé rúmur mánuður af kvótaárinu þá eigi hann ekki von á að aðrar tegundir en gullkarfi og ýsa séu til vandræða og þrengi stöðuna. Nóg ætti að vera eftir af þorsk- og ufsakvótunum.

 

Deila: