Strandveiðisjómenn á Norður- og Austurlandi ósáttir

Deila:

Einar Sigurðsson, strandveiðisjómaður á Raufarhöfn og fyrrverandi formaður félags smábátaeigenda á Norðausturlandi, segir stöðvun strandveiða koma sér illa fyrir sjómenn á hans svæði. Hann segir að með núverandi fyrirkomulagi sé verið að taka aflaheimildir frá Norður- og Austurlandi og flytja þær á Vestfirði. Þetta segir hann í samtali á ruv.is

Einar segir að upphaf strandveiðitímabilsins sé ekki gjöfult á Norður- og Austurlandi en þar veiðist jafnan mun betur síðari hluta sumars. „Við erum að fá lítinn og verðlausan fisk í maí og fram í júní. Þannig að dagarnir okkar í maí og júní nýtast afskaplega illa. Það er líka að tíðarfar í maí er ekki gott hérna upp á strandveiðar, eða handfæraveiðar. Okkar aðaltími er í júlí og ágúst. Við sitjum alltaf undir því, með þessu fyrirkomulagi, að það verði lokað akkúrat á meðan besta tíðin hjá okkur er á handfæraveiðum.“

Verið að taka aflaheimildir frá Norður- og Austurlandi

Svæðaskipting aflaheimilda var í gildi í strandveiðum þar til fyrir fjórum árum en í núgildandi fyrirkomulagi er aðeins einn heildarpottur aflaheimilda. Einar segir að með núverandi fyrirkomulagi sé verið að taka aflaheimildir frá Norður- og Austurlandi og flytja þær á Vestfirði. „Þetta er akkúrat það sem til dæmis Lilja Rafney og Landssamband smábátaeigenda eru að saka stórútgerðina um. Að vera að kaupa upp kvóta í einu þorpi og færa hann yfir á annað.“

Einar segir nauðsynlegt að koma aftur á einhvers konar svæðaskiptingu heimilda. „Þetta gengur ekki svona, eins og til dæmis núna fyrstu tvær vikurnar í júlímánuði þá komumst við ekki á sjó hérna á Norðausturlandi vegna brælu. Við gátum veitt þrjá daga á meðan önnur svæði gátu náð átta dögum.“

Breytingar á kerfinu 2018 ekki til góðs

Einar segist ekki sammála því að breytingarnar sem gerðar voru á strandveiðikerfinu árið 2018 hafi dregið úr áhættusækni eða því sem kallað var ólympískar veiðar, að sjómenn keppist um að fara út til að ná að veiða sinn skerf í öllum veðrum. „Þetta er bara nákvæmlega sama keppnin. Og fólk slær því upp að þetta sé svo miklu tryggara kerfi upp á slysahættu að gera. Við erum bara sjómenn og kunnum að fara á sjó þegar er ekki veður. Það þarf ekki Landssamband smábátaeigenda eða fyrrverandi formann atvinnuveganefndar til að hafa forsjárhyggju í því hvenær við getum farið á sjó eða ekki,“ segir Einar.

Annað hvort myndi Einar vilja hverfa aftur til svæðisbundinna aflaheimilda eða tryggja með einhverjum hætti að sjómenn austanlands og norðan gætu átt veiðidaga síðsumars þegar betur veiðist þar. Um þetta segir hann að ekki ríki samstaða innan Landssambands smábátaeigenda. „Landssamband smábátaeigenda hamrar alltaf á þessum 48 dögum, en það er ekki til neitt 48 daga kerfi.“ Þar vísar Einar til þess að síðustu dagarnir af þessum 48 komi aldrei ef heimildir klárast fyrir lok júlí. „Við myndum alveg vilja 48 daga, en við myndum þá vilja ráða því hvenær við tökum þá daga. Af því að þegar á að festa 12 í maí og 12 í júní þá er ekkert að gera fyrir okkur. Við getum ekkert nýtt þá daga. Þetta gengur ekki upp þetta kerfi.“

Einar segir marga smábátaeigendur á Norður- og Austurlandi hafa sagt sig úr Landssambandi smábátaeigenda. Hann segir sjónarmið þeirra ekki fá hljómgrunn innan sambandsins. „Þeir hampa sér í fréttum um hvað strandveiðarnar ganga vel, en þeir minnast ekki á svæðin hér. Okkar sjónarmið koma aldrei fram.“

 

Deila: