Aflaverðmæti á strandveiðum hefur aldrei verið meira

Deila:

Strandveiðum er lokið eftir 40 veiðidaga. Heildarþorskafli varð 10.948 tonn, en leyfilegur þorskafli var 11.074 tonn. Því standa eftir óveidd 126 tonn, samkvæmt samantekt á heimasíðu Landssambands smábátaeigenda.

Verðmæti strandveiðiaflans hefur aldrei verið jafnmikið og nú, eða 4,8 milljarðar króna. Í fyrra varð aflaverðmætið 2,7 milljarðar króna og aflinn um 8.600 tonn. Fiskverð hefur aldrei verið hærra en nú. Meðalverð á þorski yfir vertíðina er 406 krónur hvert kíló. Í fyrra var meðalverðið 329 krónur. Nú hafa fengist 186 krónur fyrir hvert kíló af ufsa, en í fyrra var verðið að meðaltali 101 króna.

Mestur afli barst á land á svæði A, 6.941 tonn. Það er 2.661 tonni meira en á vertíðinni í fyrra. Á svæði B varð aflinn 2.085 tonn, sem er aukning um 358 tonn. Afli á svæði C varð 1.463 tonn, sem er 125 tonna aukning. Á svæði C varð aflinn 2.035 tonn, 701 tonni meiri en í fyrra.

Langflestir bátar réru frá svæði A, eða 333 og er það fjölgun um 77 báta frá síðustu vertíð. 148 bátar réru á svæði B og fjölgaði þeim um 1. Á svæði C voru bátarnir 118, en í fyrra voru þeir 112. 113 bátar réru a svæði D, sem er fækkun um 35.

Meðalafli á bát var mestur á svæði A, 20,8 tonn. Á svæði B var meðalaflinn 14 tonn, 12.4 tonn var meðalaflinn á svæði C og á svæði D var meðalaflinn 18 tonn.

Deila: