Skortir lagastoð vegna fyrirhugaðrar reglugerðarbreytingar um hvalveiðar?

Deila:

Hvalur hf. telur fyrirhugaða reglugerðarbreytingu um veiðar á hvölum ekki styðjast við núgildandi lög. Fyrirtækið krefst þess einnig að ráðuneytið veiti Hval aðgang að öllum fyrirliggjandi gögnum sem varða fyrirliggjandi tillögu þ. á m. varðandi lagagrundvöll breytingartillögunnar og í samræmi við sem upplýsingalög nr. 140/2012 bjóða. Þetta kemur fram í athugasemdum Hvals hf. við reglugerðarbreytingu um veiðar á hval, sem kynnt er á samráðsgátt Alþingis. Níu athugasemdir hafa borist inn á gáttina.

Lagt er til að skipstjórar hvalveiðiskipa tilnefni dýravelferðarfulltrúa úr áhöfn sem ber ábyrgð á því að rétt sé staðið að velferð hvala við veiðar.

Dýravelferðarfulltrúar skulu sækja námskeið sem skal vera samþykkt af Matvælastofnun. Dýravelferðarfulltrúar skulu safna gögnum um veiðarnar og mynda þær á myndband. Öllum gögnum og myndefni skal afhenda eftirlitsdýralækni.

Verða að eiga sér stoð í lögum

„Það er álit samtakanna að reglugerðardrögin skorti fullnægjandi lagastoð. Af lögmætisreglunni leiðir að allar reglugerðir og breytingar á þeim verða að eiga sér stoð í lögum og mega ekki vera í andstöðu við lög. Sérstaklega ríkar kröfur eru gerðar til skýrleika lagastoðar ef ákvæði reglugerðar eru íþyngjandi fyrir borgarana og um er að ræða mikilsverða hagsmuni þeirra. Í því samhengi verður að hafa í huga að með fyrirhugaðri reglugerðarbreytingu stendur til að leggja víðtækar og íþyngjandi skyldur á herðar dýravelferðarfulltrúa að viðlagðri refsiábyrgð.“ Svo segir meðal annars í athugasemdum Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.

„Hlægilegar“

„Fyrirhugaðar tilætlanir matvælaráðherra eru hlægilegar,“ segir Árni Stefán Árnason í athugasemd sinni. Og ennfremur: „Rétt er að banna hvalveiðar, blóðmeraiðnaðinn og loðdýraeldi tafarlaust eins og aðrar siðaðar evrópskar þjóðir hafa gert óbeint með því að hætta þátttöku á þeim vettvangi.“

Íslensk stjórnvöld eiga val

Árni Finnsson formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands sendir inn athugasemd fyrir hönd samtakanna og segir þar meðal annars: Þá skal bent á að nýlegar fréttir af dauðastríði hvala byggja á myndum sem eru teknar við Hvalstöðina í Hvalfirði. Hvað fer fram úti á sjó eru engar heimildir um. Því er nauðsynlegt að eftirlit sé um borð í hvalbátunum og að myndefni sé því til sönnunar að dýri líði ekki vítishvalir.“
„Íslensk stjórnvöld eiga val. Annað hvort geta þau haldið áfram að dekra við Kristján Loftsson og kallað það hagsmuni Íslands eða landað í nútímanum og barist fyrir lífríki sjávar; reynt að byggja upp orðspor Íslands í baráttunni fyrir verndun hafsins,“ segir Árni.

Til bóta

„Þessi reglugerðarbreyting er til bóta. Hvalveiðar eru um margt sérstæðar og umdeildar en um er að ræða veiðar á villtum dýrum í atvinnu- hagnaðar- og manneldisskyni sem njóta alþjóðlegrar verndar. Þess vegna er eðlilegt að strangar reglur gildi um eftirlit, sbr. aðra matvælaframleiðslu, úr því að þær eru enn leyfðar, en á það hefur skort hingað til,“ segir Sigursteinn Róbert Másson í athugasemd sinni. Og ennfremur:

„Undirritaður telur að það hefði sannarlega verið betra að hafa dýralækni um borð strax við gildistöku reglugerðarinnar en úr því að því verður ekki viðkomið, þetta sumarið, er næst besti kosturinn að tilnefna einn úr áhöfninni, sem dýravelferðarfulltrúa, eins og drögin gera ráð fyrir. Skipstjóri í viðkomandi ferð þarf að vera að fullu ábyrgur fyrir myndbandsupptökum undirmanns síns, skýrleika og gæðum efnisins og fyrir því að koma öllu efni í hendur eftirlitsdýralæknis MAST við komuna til lands. þetta þyrfti einnig að koma fram í reglugerðinni.“

Hvalveiðar verði stöðvaðar

Meike Witt sendir inn athugasemd sem er undirrituð af hópi fólks. Þar er þess krafist að hvalveiðar verði stöðvaðar sem fyrst. „Það hefur sýnt sig að hvalveiðar eru efnahagslega óskynsamlegar, þær eru skaðlegar fyrir loftslag, vistkerfi sjávar og ímynd þjóðarinnar.

Hvalveiðar brjóta lög um velferð dýra, ógna lífríki og vistkerfi sjávar, losa umtalsvert af CO2 út í andrúmsloftið og skaða ímynd Íslands,“ segir þar meðal annars.

Mótmæla fyrirhugaðri breytingu

Í umsögn stéttarfélaga sjómanna segir svo:

„Við undirritaðir fulltrúar sjómannasamtakanna mótmælum fyrirhugaðri reglugerðarbreytingu. Við teljum ótækt að skipstjóri sé settur í það hlutverk að tilnefna einn úr áhöfn í slíkt eftirlitshlutverk og sú mikla ábyrgð sem því fylgir sé lagt á áhafnarmeðlim hvalveiðiskips. Um er að ræða íþyngjandi breytingu sem kemur til með að hafa í för með sér kostnað, enda staðan sú að miðað við fjölda í áhöfn hafa allir áhafnarmeðlimir hlutverk við veiðarnar. Ekkert kemur fram í breytingartillögunni um það hver skuli bera þann kostnað. Veltum við því upp hvort ekki væri hægt að ná sama markmiði með viðurhlutaminni aðgerðum. Eftirlit á ekki að koma í hlut skipstjóra og áhafnar, ríkið getur ekki útvistað eftirlitshlutverki sínu til þeirra aðila sem eftirlit er haft með.“
Árni Bjarnason formaður Félags skipstjórnarmanna,
Guðmundur Helgi Þórarinsson formaður VM-Félags vélstjóra og málmtæknimanna,
Valmundur Valmundsson formaður Sjómannasambands Íslands,
Árni Sverrisson framkvæmdastjóri Félags skipstjórnarmanna,
Hólmgeir Jónsson framkvæmdastjóri Sjómannasambands Íslands

Skref í rétta átt

Samtök um dýravelferð á Íslandi telja reglugerðina skref í rétta átt og fagna því að ráðherra sýni það í verki að mikilvægt sé að þær atvinnugreinar sem byggja á dýrahaldi og veiðum uppfylli lög um velferð dýra.

Samtökin vilja engu að síður að yfirvöld stöðvi hvalveiðar sem fyrst. Fyrir því séu fjórar megin ástæður: Hvalveiðar séu ómannúðlegar, langreyður sé í útrýmingarhættu Hvalir hafi jákvæð áhrif á umhverfið og hvalveiðar hafi neikvæð áhrif á ímynd landsins.

Grimm meðferð á dýrum

Linda Karen Gunnarsdóttir sendir umsögn undir eigin nafni þar sem hún tekur eftirfarandi meðal annars fram: „Það er rétt að fagna þessari breytingu á reglugerð 163/173 um hvalveiðar því hún er skref í rétta átt.

Það verður að taka fram að það samræmist ekki siðaðri þjóð að aflífa dýr með ómannúðlegum hætti eins og algengt er að gerist við veiðar á hvölum, en norsk rannsókn hefur sýnt að um 20% hvala hái dauðastríð sem vari í um 6-25 mínútur eftir að þeir hafa verið skotnir með sprengiskutli. Þegar eru komin fram tvö dæmi nú í sumar þar sem tvær langreyðar voru skotnar tvisvar með sprengiskutli því skot geigaði, sem þýðir að aflífun var ekki í samræmi við 21 gr. laga 55/2013 um velferð dýra. Um er að ræða óásættanlega og grimma meðferð á dýrum. Leyfi til hvalveiða á ekki að endurnýja eftir árið 2023 þar sem hvalveiðar eru í andstöðu dýravelferðarsjónarmið og ætti að draga leyfið til baka strax á þessu ári.“

 

Deila: