Skrap í lok kvótaárs

Deila:

Ísfisktogarinn Bergur VE landaði í Vestmannaeyjum á sunnudag um 60 tonnum af karfa eftir stutta veiðiferð. Heimasíða Síldarvinnslunnar ræddi við Jón Valgeirsson skipstjóra í gærmorgun.

„Við fengum karfann í Skerjadýpinu. Héldum til veiða á fimmtudag og vorum í reynd að veiðum í um tvo sólarhringa. Það var þokkalegasta veður og svo sem ekki yfir neinu að kvarta. Nú er verið að skrapa ýmislegt upp í lok kvótaárs og við þurftum að sækja karfa. Við erum vel settir að hafa verkefni því sumir eru hreinlega stopp núna. Við fórum strax út eftir löndun í gær og erum núna á Péturseynni. Það á að landa annað kvöld og þá verður komið þjóðhátíðarstopp. Það vita það allir að þjóðhátíðartíminn er heilagur tími hjá Vestmannaeyingum og þá er þar enginn á sjó,“ segir Jón.
Bergur VE landaði í Eyjum. Ljósm. Benedikt Þór Guðnason

 

 

Deila: