Ýsukvótinn er búinn

Deila:

Ýsukvótinn er búinn. Samkvæmt aflastöðulista Fiskistofu eru 36.277 tonn komin á land, en leyfilegur heildarafli er 36.446 tonn. Samkvæmt því eru 169 tonn óveidd, en líklega er það magn einhvers staðar í píunum á leið inn í kerfið. Rúmur mánuður er eftir af fiskveiðiárinu og sú ýsa sem kann að veiðast í ágúst, verður þannig á kostnað úthlutunar á næsta ári.

Vissulega er misjöfn staða einstakra báta á listanum, en býsna margir eru komnir eitthvað framyfir. Tíu skip eru komin með meira en 600 tonn á fiskveiðiárinu. Þar er Baldvin Njálsson GK eftir á blaði með 1.069 tonn og er eina skipið sem komið er með meira en þúsund tonn. Næstu skip eru Bergur VE með 965 tonn, Vigri RE með 941 tonn, Vestmannaey VE með 908 tonn, Breki VE með 837 tonn, Dala-Rafn VE með 820 tonn, Drangavík VE með 749 tonn, Drangey SK með 745 tonn, Gullver NS með 682 tonn og Kaldbakur EA með 678 tonn.

Deila: