Bretar auka styrki til sjávarútvegs í 25 milljarða króna

Deila:

Bresk stjórnvöld hafa þurft að auka styrkveitingar til útgerða sem stunda veiðar á fjarlægum miðum og reyndar einnig í einhverjum mæli á heimaslóð. Stofnun umhverfis, matvæla og dreifbýlis hefur lagt til að styrkur sem veittur var til útgerða í desember 2021 vegna útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu, verði hækkaður um 50% og fari í 25 milljarða íslenskra króna og gildi þar til í mars 2025.

Tillaga nefndarinnar kom frá formanni hennar, þingmanninum sir Robert Goodwill, til ráðherra landbúnaðar, fiskveiða, matvæla og dreifbýlismála, Victoriu Prentis.

Í bréfinu segir hann vera sammála Prentis að nauðsynlegt sé að undirbúa fiskveiðiflotann undir að sækja auknar veiðiheimildir, sem eru í sjónmáli. Nauðsynlegt sé að útgerðir sem stundi veiðar við erfið veðurskilyrði á fjarlægum miðum eigi að vera í forgangi, þegar styrkjum verður úthlutað.

Það verði að veita útgerðum og sjómönnum aðstoð til að hámarka möguleika sína til veiða. Það þýði auka verði sjóðina og tryggja að nægur tími sé til að sækja um nýja styrki. Ef menn eigi í erfiðleikum við af fylla út flókin umsóknarform, eigi þeir að fá aðstoð við það.

Þá leggur sir Robert til að stjórnvöld nýti styrki til að bæta nýtingu eldsneytis í fiskiskipaflotanum til að mæta háu eldsneytisverði og útgerðin verði umhverfisvænni.

 

 

Deila: