Stofna félag til að vinna að umhverfislausnum

Deila:

Útgerðarfélagið Brim hefur stofnað félagið Stika umhverfislausnir með Sjávarsýn, fjárfestingafélagi Bjarna Ármannssonar, og Betelgás, félagi Magnúsar Júlíussonar sem tók nýlega sæti í stjórn Festi. Í skráningargögnum kemur fram að tilgangur félagsins sé þróun og rekstur umhverfislausna. Frá þessu er greint á vb.is

„Á síðustu árum hefur Brim unnið að gerð hugbúnaðarlausna sem halda utan um umhverfisútreikninga fyrirtækisins. Með nýstofnuðu félagi, Stika umhverfislausnir ehf., er ætlunin að þróa lausnina áfram með aðkomu nýrra aðila,“ segir Magnús í svari við fyrirspurn Viðskiptablaðsins.

„Með aukinni áherslu á umhverfismál í rekstri fyrirtækja teljum við að það sé þörf fyrir hugbúnaðarlausnir af þessu tagi. Fyrirtækið mun hefja starfsemi á haustmánuðum.“

Ingólfur Helgason, fyrrum forstjóri Kaupþings á Íslandi sem starfar í dag fyrir Sjávarsýn, er skráður framkvæmdastjóri Stiku umhverfislausna að því er kemur fram í auglýsingu í Lögbirtingablaðinu.

 

Deila: