„Leiðrétta ber uppboð á skiptimarkaði“

Deila:

Eyjólfur Ármannsson, alþm. segir að leiðrétti beri uppboð á skiptimarkaðinum sl. vetur. Hann segir að það sé markaður, sem geti ekki talist frjáls markaður þar sem einokun kvótahafa ræður og tímasetning uppboðsins var ekki rétt.  Þar fengust einungis 1.079 tonn af þorski fyrir 35.089 tonn af loðnu.

Þetta kom fram á fundi þingmanna norðvesturkjördæmisins með matvælaráðherra Svandísi Svavarsdóttur í gær um strandveiðistoppið. Rætt var við Eyjólf á fréttasíðunni bb.is

„Þetta var um margt góður og málefnalegur fundur, þar sem farið var yfir málið.“ segir Eyjólfur. „Ég lagði áherslu á það að ráðherrann gæti aukið veiðiheimildir til strandveiða í ár. Það gerði hann í vor og hann hefur valdheimildir til að gera það nú í ágúst. Valdið hans. Það er ekki þannig að fiskiveiðistjórnarkerfið stjórnar ráðherranum og að hann er algjörlega valdalaus.  Ef svo væri þyrftum varla ráðherra. Þetta er spurning um vilja og ákvörðunartöku.“

Eyjólfur segir fráleitt er að bíða eftir endurskoðun kvótakerfisins þar sem vilji Alþingis á síðasta kjörtímabili hafi verið að tryggja strandveiðar við landið í 48 daga á ári og eftir þeim vilja beri ráðherranum að vinna eftir.

Lögmætar væntingar um 48 daga á ári

„Þetta voru einnig fyrirheit stjórnvalda þegar 35.000 tonna loðnukvóti var settur á skiptimarkað fyrir þorsk.  Strandveiðimenn höfðu því lögmætar væntingar um að staðið yrði við. Stöðvun strandveiða er harkaleg aðgerð og hefur mikil áhrif á sjávarbyggðir Norðvesturkjördæmis og strandveiðimenn og fjölskyldur þeirra, sem verða fyrir búsifjum vegna stöðvunarinnar. Margar þessara byggða eru brothættar byggðir.“

„Strandveiðarnar eru mjög mikilvægar sjávarbyggðum kjördæmisins, því var mikilvægt að við þingmenn kjördæmisins funduðum með ráðherranum um strandveiðistoppið. Baráttan fyrir strandveiðum er barátta fyrir búseturétti íbúa sjávarbyggðanna og jöfnum búseturétti. Tilvist sjávarbyggðanna byggir á aðgangi að fiskimiðunum. Þannig hefur það alltaf verið.  Strandveiðarnar munu áfram vera gríðarlega mikilvægar fyrir sjávarbyggðirnar. Þetta mál er ekki að fara.  Krafan er skýr, aukið frelsi til strandveiða. Þær ógna ekki fiskistofnum, því veiðar á 15-20 króka gera það ekki.“

Búseturéttur sjávarbyggðanna

Eyjólfur Ármannsson segir að Matvælaráðherra eigi að taka afstöðu með búseturétti sjávarbyggðanna og atvinnufrelsi strandveiðimanna, sem ógnar ekki fiskistofnum. „Ráðherrann á því að auka aflaheimildir til strandveiða og standa þannig við upphaflega úthlutun aflaverðmæta til strandveiða. Úthlutunar sem varð einokun að bráð á skiptimarkaði aflaheimilda. Ráðherranum ber skylda til að leiðrétta afleiðingar einokunarinnar og standa með sjávarbyggðunum og lögmætum væntingum strandveiðimanna og tryggja 48 veiðidaga. Matvælaráðherra getur einnig með reglugerð í ágúst ráðstafað almennum byggðakvóta til strandveiða. Í dag fer stór hluti byggðakvóta til stórútgerðar, ekki til strandveiða. Einnig má nefnda rækju- og skelbætur í þorskígildum sem úthlutað hefur verið árum saman.“

 

Deila: