Gífurlegt magn af gullkarfa á Halanum

Deila:

„Það er gríðarlegt magn af gullkarfa á Halamiðum og menn verða að hafa það í huga nú í lok fiskveiðiársins. Sjálfir fengum við óvart tvö stór karfahol á Halanum og þau settu okkur nánast úr leik í veiðiferðinni,” segir Eiríkur Jónsson, skipstjóri á ísfisktogaranum Akurey AK en skipið kom til hafnar í Reykjavík í síðustu viku. Rætt er við Eirík á heimasíðu Brims.

Eiríkur segist hafa byrjað veiðiferðina á Halanum. Aflinn hafi að uppistöðu verið þorskur en einnig hafi fengist ufsi, Karfaholin góðu höfðu þau áhrif að Eiríkur ákvað að færa sig og reyna veiðar á Þverálshorni.

,,Við tókum reyndar bara eitt hol á Þverálshorninu og aflinn var þorskur og ufsi,” segir Eiríkur sem ákvað að færa sig aftur.

,,Ég ákvað að láta reyna á grunnslóðina út af Patreksfirði. Þar var mjög mikið af stórum og góðum þorski en ýsugengd fór vaxandi eftir því sem á leið. Hið nákvæmlega sama gerðist á þessum tímapunkti í fyrra. Þorskurinn liggur þarna í síld, sem er að hrygna, og ýsan mætir til að éta hrognin.”

Að sögn Eiríks var ýsugengdin orðin óheyrilega mikil undir lokin og því var ekki annað í boði en að hífa og koma sér á önnur mið.

,,Veiðiferðin var að enda en við ákváðum að enda í Skerjadjúpinu og freista að ná í eitthvað af djúpkarfa. Við náðum því að taka tvö hol og fengum um 12 til 14 tonn af djúpkarfa. Það ætti að duga til að fylla einn gám,” segir Eiríkur Jónsson en hann upplýsir að heildaraflinn í veiðiferðinni hafi verið um 170 tonn. Uppistaða aflans er þorskur en einnig fékkst töluvert af ufsa, gullkarfa og ýsu og svo nokkuð af djúpkarfa.

 

Deila: