Styðja hugmyndir um svæðaskiptingu á aflamarki til strandveiða

Deila:

Smábátafélagið Fontur efndi til félagsfundar á Þórshöfn þann 4. ágúst sl.  Ágæt mæting var á fundinum og góðar umræður um strandveiðar og fyrirkomulag þeirra í náinni framtíð sem var mál málana á dagskránni.

Fram kom að þótt félagsmenn styddu framkomnar hugmyndir matvælaráðherra um að svæðaskipta aflamarki til strandveiða í réttu hlutfalli við útgefin strandveiðileyfi hvers svæðis, ætti ekki að hvika frá kröfu um 48 daga til strandveiða.  Einungis væri um biðleik að ræða þar til því takmarki yrði náð.  Þar til það næðist væri nauðsynlegt að jafna afkomumöguleika smábátaeigenda óháð búsetu.

Fundurinn samþykkti eftirfarandi tillögu sem borin var upp af stjórn félagsins:

„Smábátafélagið Fontur styður heilshugar við framkomnar hugmyndir matvælaráðherra um að svæðaskipta því aflamarki sem ætlað er til strandveiða í réttu hlutfalli við útgefin strandveiðileyfi á hverju svæði. 

Með því er hvergi verið að hvika frá kröfu um 48 strandveiðidaga en þar til því takmarki er náð teljum við nauðsynlegt að jafna afkomumöguleika smábátaeigenda óháð búsetu.“

 

Deila: