Óttast skerðingu í þorski og karfa

Deila:

Heildarvelta tíu stærstu útgerða landsins nam rúmlega 232 milljörðum króna á síðasta ári og jókst um nærri 44 milljarða frá fyrra ári, eða um 23%. Samanlagður hagnaður félaganna nam tæplega 58 milljörðum króna og jókst um 35 milljarða milli ára.

Jónas Gestur Jónasson, yfirmaður sjávarútvegshóps Deloitte, segir endurkomu loðnunnar hafa komið sér vel fyrir margar útgerðir landsins. Hækkandi afurðaverð á erlendri grundu hafi einnig haft sitt að segja um bætta afkomu, sem og samþjöppun innan greinarinnar.

„Þótt hægt sé að hafa mismunandi skoðanir á samþjöppun í greininni þá leiðir hún óneitanlega til hagræðingar sem svo skilar sér í aukinni arðsemi,“ segir Jónas Gestur í samtali við Viðskiptablaðið.

Hann segir horfur yfirstandandi árs í greininni ágætar og afurðaverð sé enn nokkuð hátt. Aftur á móti komi lækkun aflamarks þorsks og karfa illa við útgerðina.

„Fyrirtækin óttast þessa skerðingu þar sem hún dregur úr landvinnslu og úthaldi bátanna. Til framtíðar hafa fyrirtækin mestar áhyggjur af samkeppnishæfni landvinnslunnar í samanburði við aðrar þjóðir. Þessi atvinnugrein einkennist þó af miklum sveiflum svo fyrirtækin eru orðin vel sjóuð í að bregðast við ýmsum skakkaföllum.“

 

Deila: