Fáliðað á miðunum

Deila:

,,Það er greinilegt að það er ekki mikið eftir af kvótaárinu. Við urðum varir við tvo togara í öllum túrnum og það þýðir bara að kvótinn eða kvótinn í einstökum tegundum er búinn,” segir Jóhannes Ellert Eiríksson (Elli), skipstjóri á ísfisktogaranum Viðey RE í spjalli á heimasíðu Brims.

Viðey var í Reykjavík í byrjun vikunnar þar sem landað var um 150 tonnum af fiski úr skipinu, þar af rúmlega 40 tonnum af ufsa. Allt snýst um það hjá áhöfninni núna að veiða sem mest af ufsa en það getur reynst snúið vegna þess að ufsinn heldur sig oftast með karfa eða þorski á veiðislóðinni.

,,Við hófum veiðar, að þessu sinni á Fjöllunum, en færðum okkur svo á grunnslóðina út af Patreksfirði. Þar var þorskur og ufsi en ýsa var ekki til vandræða. Svo var endað norður á Hala en þar fengust allar helstu tegundirnar, s.s. þorskur, karfi, ufsi og ýsa.

Elli hefur ekki heyrt af því að menn hafi farið í Víkurálinn nýlega en það stafi væntanlega af því að þar sé bara karfi eða vegna þess hve skipin eru orðin fá. Er rætt var við Ella var Viðey á leiðinni á miðin að nýju.

,,Við förum rakleiðis á Halann. Ég á von á því að veðrið leiki ekki við okkur eins og það gerði í síðasta túr. Það er spáð einhverri kaldafýlu og vonandi verður veðrið ekki verra en það,” segir Jóhannes Ellert Eiríksson.

 

Deila: