Snæfell EA 310 til heimahafnar eftir endurbætur

Deila:

Snæfell EA 310, frystitogari Samherja, kom til Akureyrar sl. laugardag. Samherji keypti skipið af Framherja í Færeyjum á árinu. Ýmsar endurbætur voru gerðar á skipinu í kjölfar kaupanna, sem aðallega er ætlað að stunda veiðar og vinnslu á grálúðu og karfa.

Skipið sem var smíðað í Noregi árið 1994 er 85 metra langt og 2,898 brúttótonn. Samið var um endurbæturnar við Orskov Yars skipasmíðastöðina í Fredrikshavn í Danmörku.

Vinnslulínan var endurnýjuð, vistarverur voru að stórum hluta endurgerðar og einnig sameiginleg rými. Rafeindahluti í brú var endurnýjaður að mestu leyti. Skipt var um loftræstikerfi og ýmiss búnaður í vélarrúmi var uppfærður. Þá var skipið heil-málað, bæði að innan og utan.

Samtals tóku þessar breytingar í Danmörku liðlega þrjá mánuði.

Ráðgert er að Snæfell haldi til veiða síðar í vikunni. Átján menn verða að jafnaði í áhöfn. Skipstjóri í fyrsta túr verður Pálmi Hjörleifsson og yfirvélstjóri Óli Hjálmar Ólason. Stefán viðar Þórisson verður skipstjóri á móti Pálma.

 

Deila: