Stuðla að grænum skrefum í sjávarútvegi

Deila:

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og breytingar á lögum um stjórn fiskveiða (aflvísir og orkuskipti) eru nú til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda. Áformin snúa að fyrirhuguðu frumvarpi um breytingu á löggjöf til að hrinda úr vegi hindrunum í löggjöf er varða græn skref í sjávarútvegi.

„Með auknum kröfum um að draga úr olíunotkun fiskiskipa hefur bæði verið horft til breytinga á skipsskrokknum og stærð skrúfu. Með því að stækka skrúfu samfara hæggengari vél hefur náðst umtalsverður árangur í olíusparnaði. Stærri skrúfa (aukið þvermál) þýðir hækkaðan aflvísi, sem leiðir til þess að óbreyttu að heimildir smærri togskipa til veiða innan 12 mílna fiskveiðilandhelginnar skerðast. Þá hafa stærðartakmarkanir áhrif á upptöku nýrra orkugjafa á krókaaflamarksbátum og er því fyrirhugað að leggja til heimildir fyrir því að slíkir bátar verði stærri séu þeir knúnir áfram af vistvænum orkugjöfum. Einnig þarf að huga að öryggi áhafnar ef notast er við mjög eldfiman orkugjafa. Í fyrirhuguðu frumvarpi er áformað að leggja til breytingar á lögum nr. 79/1997 um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og lögum nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða,“ segir í texta með frumvarpinu.

 

Deila: