Samskip flytja inn koldíoxíð fyrir Carbfix

Deila:

Hluti af aðgerðum Samskipa í loftslagsmálum er stuðningur við verkefni Carbfix þar sem koldíoxíð (CO2) er flutt inn í gámum og bundið í stein með niðurdælingu. Samskip styðja verkefnið í eitt ár með flutningi á efninu til landsins.

Verkefnið nefnist Sæberg (e. CO2SeaStone) og er samstarfsverkefni Carbfix og ETH Zurich, Háskóla Íslands, ÍSOR, háskólanna í Genf og Lausanne og University College í London. Það er hluti af tilraunaverkefninu DemoUpCARMA, sem leitt er af ETH Zurich og gengur út á að prófa og þróa ýmsar lausnir til föngunar, nýtingar, flutnings og förgunar á CO2.

Ein þessara lausna er að fanga CO2 úr útblæstri frá iðnaði í Sviss, flytja til Rotterdam og þaðan með skipi til Íslands þar sem það verður leyst upp í sjó fyrir niðurdælingu og steinrenningu með Carbfix aðferðinni.

Fyrsti gámurinn með 20 tonn af CO2 frá Sviss kom til landsins nú nýverið.

„Við erum hæstánægð með tækifærið til að styðja verkefnið Sæberg. Verkefnið fellur fullkomlega að umhverfis- og sjálfbærnimarkmiðum Samskipa sem hafa gripið til markvissra aðgerða til að lágmarka umhverfisáhrif eigin starfsemi og styðja að auki við margvísleg verkefni þar sem leitað er leiða til að draga úr útblæstri og efla umhverfisvernd.“

Carbfix hefur frá árinu 2012 fangað koldíoxíð frá Hellisheiðarvirkjun, blandað það ferskvatni og dælt ofan í basalt neðanjarðar, þar sem það umbreytist í stein á innan við tveimur árum með náttúrulegum efnahvörfum. Þessi aðferð til varanlegrar og öruggrar förgunar á CO2 hefur vakið heimsathygli.

Þó að góðar aðstæður séu fyrir hendi víða í heiminum til að beita Carbfix-tækninni er aðgangur að ferskvatni sums staðar takmarkandi þáttur. Takist að sýna fram á að unnt sé að nota sjó í stað ferskvatns mun það fjölga verulega þeim svæðum þar sem hægt er að beita tækninni,“ segir Þórunn Inga Ingjaldsdóttir, forstöðumaður markaðs- og samskiptadeildar Samskipa.

 

 

Deila: