Trillukarlar funduðu með ráðherra

Deila:

Í kjölfar bréfs formanna Fonts, Kletts og Félags smábátaeigenda á Austurlandi sem sent var Svandísi Svavarsdóttur matvælaráðherra boðaði ráðherra formennina til fundar við sig.  Fundurinn var haldinn 18. ágúst sl. þar sem rætt var um efni bréfsins. Um þetta er fjallað á heimasíðu Landssambands smábátaeigenda.

Að loknum fundi sögðu formennirnir að ráðherra hefði sýnt góðan skilning á þeim vanda sem upp hefði komið á strandveiðum sl. þrjú þar sem veiðar hefðu verið stöðvaðar áður en veiðitímabilinu væri lokið.   Á árinu 2020 19. ágúst, 2021 18. ágúst og nú í sumar 21. júlí.

Á fundinum var mikið rætt um tilboðsmarkað Fiskistofu og þau vonbrigði að ekki hafi tekist að fá nægjanlegar heimildir í þorski til að dekka þann afla sem þyrfti til strandveiða.  Það væri í hæsta máta óeðlilegt að 57 þúsund tonn af verðmætum uppsjávartegundum hefðu ekki skilað meiru en 3.765 tonmnu af þorski  – jafngildi ígildastuðli upp á 0,065   Þarna hefði greinilega ekki verið staðið nægjanlega vel að málum.

Aðspurðir að loknum fundi sögðu formennirnir að líklegt væri að skortur á þekkingu á framkvæmd uppboða hefði leitt til að ekki fékkst meira út úr skiptunum.  Brýnt væri að uppákoma sem þessi endurtæki sig ekki og því mikilvægt að Fiskistofa réði til sín aðila sem hefði sérþekkingu á uppboðum.  Gríðarlegir hagsmunir væru í húfi og því yrði að vanda til verka.

Fundarmenn voru sammála um að brýnt væri að koma í veg fyrir skerðingu á þeim tíma sem veiðileyfi til strandveiða væri gefið út til.  Stöðvun eins og verið hefði á undanförnum árum leiddi til ójafnræðis milli landsvæða þar sem misjafnt væri hversu mánuðir væru gjöfulir

Fundurinn var í alla staði málefnalegur og formennirnir, þeir Andri Viðar frá Kletti, Halldór frá Fonti og Guðlaugur frá FSA ánægðir með fundinn.

 

Deila: