„Minningarreiturinn langt umfram þær vonir sem ég hafði”

Deila:

Reitur til minningar um það starfsfólk Síldarvinnslunnar sem farist hefur við störf var vígður í Neskaupstað í dag. Hvatamaður að reitnum segir viðbrögð stjórnenda fyrirtækisins sem og reitinn sjálfan hafa farið langt fram úr hans væntingum. Greint er frá þessu vefsíðunni austurfrett.is

„Þetta er stórglæsilegt mannvirki og einstakar hugmyndir um viðbætur til að gera það enn veglegra. Þetta er langt umfram þær vonir sem ég gerði mér þegar ég kvaddi mér orðs á aðalfundinum forðum,“ sagði Hlífar Þorsteinsson sem opnaði reitinn.

Ákvörðun um reitinn var tekin árið 2017 í tengslum við 60 ára afmæli Síldarvinnslunnar. Hlífar hafði þá áður lagt tillöguna fram á aðalfundi. Minningarreiturinn stendur á grunni gömlu fiskimjölsverksmiðjunnar sem eyðilagðist í snjóflóðunum sem féllu á Neskaupstað 20. desember árið 1974. Sjö starfsmenn fórust þar.

Vildi fá grunninum nýtt hlutverk

„Oft var rætt manna á milli um grunn bræðslunnar. Ég hafði þá skoðun að hann ætti að fá nýtt hlutverk, að hann minningarreitur um þá sem látist hafa við störf og sögu Síldarvinnslunnar. Þangað gæti fólk komið, staldrað við og notið á einum veðursælasta stað fjarðarins.

Ég velti fyrir mér hvernig ég gæti komið þessu á framfæri. Á næsta aðalfundi bað ég um orðið undir liðnum önnur mál. Það tók á en eftir það var erfiðasti hjallinn unninn.

Viðbrögðin voru betri en ég hefði nokkurn tímann þorað að vona. Stjórnarformaðurinn, Þorsteinn Már Baldvinsson, gekk beint til mín eftir fundinn, glaður, rétti mér höndina og sagði: „Við gerum þetta. Gallinn er sá að svona mál vilja gleymast í hita leiksins. Þú verður því að fylgja því eftir. Hringdu í mig ef þú þarft á því að halda.“

Það sama sögðu aðrir stjórnendur. En ég hef aldrei þurft að ýta á eftir heldur verið reglulega upplýstur um gang mála. Mér þykir væntum þessi viðbrögð. Þau lýsa virðingu og metnaði í garð starfsfólks, samfélagsins og umhverfisins,“ sagði Hlífar sem einnig fór yfir áfanga og áföll í útgerð í Neskaupstað í ræðu sinni.

Útgerð í Neskaupstað þurft að takast á við áföll

„Þetta er gleðidagur þar sem grunnur gömlu bræðslunnar fær nýtt hlutverk. Allt byrjaði á þessum grunni, sem gert hefur Síldarvinnsluna að því sem hún er í dag og þeim verðmætum sem hún og starfsfólkið hafa skapað og fært íslensku þjóðinni.

Það hefur ekki gengið þrautalaust og með ólíkindum hvernig tekist hefur að vinna einstakt starf þrátt fyrir áföll. Hér var öflug útgerð sem stofnuð voru samtök um. Tveir stórir togarar hennar fórust með tveggja ára millibili og með þeim vaskir menn.

Eftir að fyrri togarinn fórst létu Norðfirðingar byggja vandað og vel búið skip sem kom til heimahafnar nokkrum dögum eftir að seinni togarinn fórst. Það lenti síðar í miklu óveðri og var hætt komið tveimur árum síðar.“

Fórst fyrsta starfsdaginn

Síldarvinnslan var stofnuð í desember árið 1957 utan um uppbyggingu fiskimjölsverksmiðjunnar. Hún tók til starfa sumarið 1958. Auk þeirra sem fórust í snjóflóðinu hafa fimm manns látist við störf fyrir fyrirtækið, þrír á sjó og tveir í landi. Einn þeirra var faðir Hlífars, Þorsteinn Jónsson, sem lést 17. júlí árið 1958, sama dag og Síldarvinnslan tók á móti hráefni til vinnslu í fyrsta sinn.

„Menn höfðu unnið nótt sem dag við að koma verksmiðjunni upp. Það var liðið á sumarið og síldarvertíðin senn að klárast. Eftirvæntingin og tilhlökkunin fyrir gangsetningunni var mikil. Laust eftir miðnætti var byrjað að landa úr fyrsta bát.

Hráefnisþrærnar voru ekki alveg tilbúnar og enn var verið að styrkja veggina. Faðir minn, 23 ára, hafði nýlokið sveinsprófi í vélvirkjun og starfaði við Vélaverkstæði Dráttarbrautarinnar. Hann var útivistarmaður, hljóp um fjöll á sumrin en var á skíðum á veturna, varð Austurlandsmeistari 1950, þá 15 ára gamall.

Undir morgun gaf þróarveggur sig undan þunga síldarinnar sem var kominn í hana. Pabbi náði að aðstoða þann sem síðast var bjargað áður en veggurinn gaf sig og hann varð undir.

Þá breyttist allt. Löndun var hætt, báturinn fór síðar til Fáskrúðsfjarðar. Vinnan breyttist. Farið var að rífa niður þar sem nýbúið var að byggja, moka síldinni í burtu, meðal annars í sjóinn, með öllu sem tiltækt fannst. Það var liðið á daginn þegar faðir minn fannst og náðist í burtu,“ sagði Hlífar í tilfinningaþrunginni ræðu.

„Dökk slysaský komu nokkrum sinnum yfir fallega fjörðinn okkar með afleiðingum. Stærst og afdrifaríkast var 16 árum síðar þegar snjóflóð féllu á íbúðarhús og ruddu úr vegi þremur atvinnufyrirtækjum. Áfallahjálp var þá óþekkt, hver reyndi að takast á við málin á sinn hátt. Alvarlegir hlutir og líðan var rædd sem minnst.

Það var ekki fyrr en 20 árum síðar, eftir hörmungarnar á Vestfjörðum, sem farið var að ræða um áfallahjálp. Þá var fyrst varið að ræða málin. Við það skýrðist margt og létti á fólki,“ bætti Hlífar við.

Þróa svæðið áfram

Kristján Breiðfjörð Svavarsson hlaut fyrstu verðlaun í samkeppnini sem haldin var um hönnun minningarreitsins en Ólafía Zoëga fékk sérstaka viðurkenningu. Við hönnunina var lögð áhersla á að staðurinn væri hlýlegur, friðsæll og þar væri hægt að njóta kyrrðar og útsýnis. Hann prýðir meðal annars gufuketill sem var hluti af bræðslunni. „Þessi verksmiðja hefur borið mikla björg í bú en líka kostað okkur fórnir. Við minnumst þeirra,“ sagði Gunnþór Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar við athöfnina í dag.

Á reitnum má finna stálskildi með lykilatriðum úr sögu Síldarvinnslunnar sem og nöfnum þeirra sem látist hafa við störf. Til stendur að þróa reitinn áfram og er framundan gerð göngustígs að bryggju eða útsýnispalli þar skammt hjá. „Það er einlæg ósk okkar að þessi minningar- og sögureitur verði friðsæll staður þar sem fólk geti átt fallegar stundir,“ bætti Gunnþór við.

Deila: