Ekki tókst semja um nýtingu og verndun úthafanna

Deila:

Tveggja vikna fundahöldum fulltrúa Sameinuðu þjóðanna um gerð samnings til verndunar og nýtingar lífríkis úthafanna er lokið án niðurstöðu. Ætlunin var að finna sameiginlega lausn á umhverfis- og efnahagsvanda tengdum höfunum. Greint er frá þessu á ruv.is

Samningamenn ríkja heims hafi undanfarin fimmtán ár án árangurs reynt að komast að samkomulagi um skýrar reglur um þennan nærri helming yfirborðs jarðar.

Fjórum sinnum hefur verið fundað formlega um fyrirhugaðan hafréttarsamning Sameinuðu þjóðanna um verndun og sjálfbæra nýtingu líffræðilegrar fjölbreytni í hafinu utan lögsögu ríkja (e. Biodiversity Beyond National Jurisdiction, BBNJ).

Miklar vonir voru bundnar við að viðræðurnar nú yrðu þær síðustu. Rena Lee frá Singapore stjórnaði viðræðum og segir verulegan árangur hafa náðst. Þó þurfi nokkurn tíma til viðbótar svo komast megi að endanlegri niðurstöðu.

Nú ber Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna að skipuleggja fimmtu viðræðurnar en dagsetning liggur ekki enn fyrir. Helsti ásteytingarsteinn viðræðnanna hefur hingað til tengst því hvernig ágóða verði skipt af erfðaauðlindum í úthöfunum.

Rannsóknir, sem eru eingöngu á færi auðugra ríkja, vonast lyfja-, efna-, og snyrtivöruframleiðendur til að leiði af sér töfralyf og -vörur. Hins vegar vilja fátækari ríki einnig njóta góðs af ágóðanum sem fæst af auðlindum svæða sem í raun tilheyra engu einu ríki.

Hafréttarsáttmálinn grundvöllur samvinnu

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, tilkynnti á opnunarathöfn Hafráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í sumar að Ísland væri meðal þeirra ríkja sem vildu fullnusta samninginn.

Á vef Stjórnarráðsins segir að forsætisráðherra hafi í ávarpi sínu tekið fram hve þýðingarmikið hafið sé fyrir Ísland og að náin tengsl væru á milli loftslagsmála og málefna hafsins. Hafréttarsáttmáli Sameinuðu þjóðanna væri mikilvægur grundvöllur samvinnu um málefni hafsins.

Katrín tilkynnti við sama tilefni um þátttöku Íslands í metnaðarbandalagi um alþjóðlegan samning um verndun, sjálfbæra nýtingu líffræðilegrar fjölbreytni í hafinu utan lögsögu ríkja.

 

Deila: