Höfnin full af seiðum og síld

Deila:

Það hefur verið mikið líf í Austfjörðunum að undanförnu. Hrefnur hafa verið áberandi og fuglalíf býsna fjörugt. Það er ljóst að mikið æti er í fjörðunum og því fylgir hvalagengd og fuglager. Vart hefur orðið við töluverða síld í Norðfjarðarflóanum og fjörðunum þremur sem ganga inn úr honum; Viðfirði, Hellisfirði og Norðfirði. Fyrir nokkrum dögum var smábátahöfnin í Neskaupstað full af seiðum og síld. Er fullvíst talið að þarna sé um loðnuseiði að ræða og virtist síldin kunna vel að meta þetta veisluborð. Grétar Örn Sigfinnsson, útgerðarstjóri Síldarvinnslunnar, tók myndir af seiðatorfum í höfninni á neðansjávardróna og fylgja þær hér.

Hlekkur á myndbandið: https://vimeo.com/744551603

Heimasíða Síldarvinnslunnar ræddi við Þorsteins Sigurðsson, forstjóra Hafrannsóknastofnunar, og Guðmund Óskarsson fiskifræðing og spurði þá hvort þessi seiða- og síldargegnd í fjörðunum kæmi á óvart. Báðir sögðu þeir að þetta væri spennandi og töldu æskilegt að nánari skoðun færi fram. Spurningin væri hvaðan þessi loðnuseiði kæmu og eins þyrfti að afla óyggjandi upplýsinga um hvaða síld væri hér á ferðinni.

Þorsteinn sagði að hann hefði nýverið verið í Mjóafirði og þar hefði verið mikið líf í firðinum. Meðal annars hefðu hrefnur verið þar á ferð og svartfugl og mávur augljóslega verið í æti. Guðmundur sagði að loðnuseiðum fylgdi gjarnan mikið líf. Síldin sæktist í seiðin og hrefnur og fuglar í síldina og einnig í loðnuna. Hann sagði að ómögulegt væri að segja með óyggjandi hætti í dag hvaðan umrædd loðnuseiði kæmu en ekki væri ósennilegt að þau kæmu úr hrygningu fyrir norðan land. Mögulega verði þó hægt í náinni framtíð að greina uppruna loðnuseiða með greiningum á efnasamsetningu kvarna þeirra, en slíkt rannsóknaverkefni er í gangi innan stofnunarinnar.

Guðmundur taldi sennilegt að síldin í fjörðunum væri íslensk sumargotssíld en mikilvægt væri að fá sýni af henni til að greina m.a. aldurssamsetninguna. Árgangur sumargotssíldar frá 2017 væri sterkur og líklega væri 2018 árgangurinn það einnig, en minna er vitað um styrk yngri árganga. Tveggja til þriggja ára síld hefði haldið sig í djúpunum út af suðausturlandi undanfarna vetur en dreifir sér yfir sumarið og kæmi þá meðal annars inn á Austfirðina í ætisleit. Þorsteinn velti fyrir sér hvort hugsanlegt væri að nýtt síldarævintýri á Austfjörðum væri í uppsiglingu en síðast var síld veidd þar á níunda áratug síðustu aldar.

Bæði Þorsteinn og Guðmundur töldu að full þörf væri á að rannsaka seiðin og síldina fyrir austan betur og er jafnvel ráðgert að hafrannsóknaskipið Bjarni Sæmundsson afli fljótlega sýna til rannsókna.

 

Deila: