Stærsti túr Blængs á Íslandsmiðum

Deila:

Frystitogarinn Blængur NK kom til Neskaupstaðar í gærmorgun að aflokinni 37 daga veiðiferð. Skipið millilandaði 6. ágúst, einnig í Neskaupstað. Afli skipsins var um 75 tonn upp úr sjó að verðmæti 437 milljónir króna. Heimasíða Síldarvinnslunnar ræddi við Bjarna Ólaf Hjálmarsson skipstjóra og spurði fyrst hvar veitt hefði verið.

„Við veiddum á Austfjarðamiðum og síðan á Halanum. Túrinn gekk vel og það var gott veður allan tímann. Við veiddum mest grálúðu fyrir austan og náðum einum 210 tonnum af henni. Á miðunum fyrir vestan var aflinn blandaður. Það voru tignarlegir borgarísjakar á Halamiðum og þeir settu svo sannarlega svip á umhverfið. Þarna var til dæmis jaki sem var um 30 metra hár en það þýðir að hann hafi náð eina 900 metra niður. Þetta er stærsti túr Blængs á Íslandsmiðum. Það eru einungis Barentshafstúrar sem hafa verið stærri.,“ segir Bjarni Ólafur.

Blængur mun halda til veiða á ný á föstudagskvöld.
Blængur NK að veiðum á Halamiðum. Tignarlegur borgarísjaki í baksýn. Ljósm. Magnús Ríkarðsson

 

 

Deila: