Indverskur ýsuréttur

Enn er það blessuð ýsan, enda uppáhaldsfiskur ansi margra. Einfaldur, hollur og góður réttur ættaður frá Indlandi og nýtur vinsælda í héraðinu Kerala. Uppskriftin er ætluð fyrir fjóra. Verði ykkur að góðu.
Innihald:
600g ýsa, roð- og beinlaus skorin í hæfilega munnbita
300g basmati hrísgrjón
1 msk. matarolía
2 stórir laukar sneiddir
2 hvítlauksgeirar saxaðir
450g tómatar, skornir í bita
3 msk. tikka karrýmauk
400g dós kókoshnetumjólk
½ lítið knippi af ferskum kóríander, gróft söxuðum
Aðferð:
Sjóðið hrísgrjónin eftir leiðbeiningum á umbúðum. Á meðan grjónin sjóða er olían hituð á stórri pönnu og laukurinn mýktur í henni. Þegar hann er að byrja að brúnast fara hvítlaukurinn og tómatarnir út á. Hrærið vel saman og látið krauma í 2 mínútur. Hrærið þá karrýmaukinu saman við og loks fer kókoshnetumjólkin útí. Látið suðuna koma upp.
Bætið fiskinum út á pönnuna og látið sjóða við lágan hita í 5-8 mínútur eða þar til fiskurinn er gegneldaður. Stráið kóríandernum yfir og berið fram með hrísgrjónunum og góðu brauði.