Milljarða þarf svo hægt sé að rafvæða hafnirnar

Deila:

Áætlað er að það kosti allt að fimm milljarða króna að setja upp búnað í Akureyrarhöfn svo hægt verði að tengja öll skemmtiferðaskip við rafmagn. Hafnarstjórinn telur að rafvæðing verði helsta verkefnið við þróun hafnarinnar næstu ár. Frá þessu er greint á ruv.is

Lengi hefur verið hægt í Akureyrarhöfn, og fleiri höfnum, að tengja við rafmagn alla togara og smærri skip. Síðustu ár hefur svo verið unnið að því að bæta við búnaði í Akureyrarhöfn svo tengja megi flutningaskip og smærri skemmtiferðaskip við rafmagn í landi.

Minni skip tengd í síðasta lagi vorið 2024

„Við erum komin með í Tangabryggju, sem er nýjasta bryggjan, raflagnir fyrir háspennu fyrir flutningaskip og smærri skemmtiferðaskip. Við erum á lokametrunum við að klára það verkefni. Síðan erum við að fara í endurbætur á Torfunefsbryggju og það verður settur upp svipaður búnaður þar,“ segir Pétur Ólafsson hafnarstjóri.

Hann áætlar að í síðasta lagi vorið 2024 verði hægt að tengja minni skemmtiferðaskip við rafmagn á Akureyri. Og það þarf mikla orku til að landtengja skemmtiferðaskip við rafmagn.

Langstærsta verkefni næstu ára

„Ef við byrjum á litlu skipunum þá eru þau kannski að taka eitt til eitt og hálft megavatt. Stóru skipin eru sex til ellefu, mjög algengt. Og allavega hér á Akureyri ætti það að geta gengið upp, það ætti að vera nóg rafmagn yfir sumarmánuðina til þess að geta tengt þau skip í framtíðinni.“

Og háspennubúnaður í landi fyrir allar tegundir skemmtiferðaskipa kostar sitt.

„Við höfum verið að skjóta á að við séum að tala um fjóra til fimm milljarða og ég held að það sé mjög óraunhæft að íslenskar hafnir geti staðið undir þessu án þess að ríkisvaldið komið að einhverju magni að því verkefni.“

Sérðu fyrir þér að þetta sé verkefni sem þið munið vera í næstu árin?

„Ég held að síðustu þrjú, fjögur, jafnvel fimm ár, sé þetta búið að vera stærsta verkefni í þróun hafnarinnar. Ég er ekki í nokkrum vafa um að þetta er lang-, langstærsta verkefnið sem við munum vera með í fanginu næstu árin,“ segir Pétur Ólafsson hafnarstjóri.

 

Deila: