Hæstiréttur hafnar beiðni Eimskips um áfrýun

Deila:

Hæstiréttur hafnaði í gær beiðni Eimskips um áfrýjun á dómi Landsréttar sem hafnaði kröfum félagsins í svokallaða CFC-málinu. Í tilkynningu til Kauphallarinnar segir Eimskip að málinu sé þar með lokið. Niðurstaðan engin áhrif til gjalda eða greiðslu en málskostnaður fyrir héraðsdómi og Landsrétti var látinn niður falla. Frá þessu er greint á vb.is

Landsréttur staðfesti í júní dóm Héraðsdóms Reykjavíkur um að hafna kröfum Eimskipafélags Íslands hf. um ómerkingu á úrskurði yfirskattanefndar í máli félagsins frá árinu 2019 og að ríkið yrði dæmt til að greiða félaginu rúmlega 24 milljónir króna. Í síðasta ársreikningi Eimskips kom fram að málið hefði kostað félagið 0,7 milljónir evra, eða hátt í hundrað milljónir króna.

Málið laut að framtölum Eimskips gjaldárin 2014 og 2015 vegna óbeins eignarhalds félagsins á félögum í Antígva og Barbúda. Eimskip átti hið færeyska P/f Faroe Ship en það félag átti dótturfélög á karabísku eyjunum sem starfræktu þurrleigu skipa. Deila málsins laut að því hvort Eimskip hefði borið að skila CFC-skýrslu vegna þessa rekstrar og telja sér hagnað þeirra til tekna í skattskilum sínum.

Með úrskurði í desember 2017 endurákvarðaði Skatturinn opinber gjöld Eimskips vegna eignarhalds á félögum í Antígva og Barbúda sem stunduðu þurrleigu á skipum. Hækkuðu tekjur um rúman milljarð árið 2014 og um rúmar 387 milljónir króna árið á eftir. Leiddi það til þess að stofn til tekjuskatts fyrra árið varð 97 milljónir í stað yfirfæranlegs 159 milljóna taps og seinna árið féll 285 milljóna yfirfæranlegt tap. Fjórðungsálagi á vantaldan skattstofn var bætt við og nam greiddur skattur ríflega 24 milljónum króna.

Eimskip taldi að félaginu hefði ekki borið að skila CFC-skýrslum þar sem tekjurnar af útleigunni hefðu orðið til í gegnum dótturfélag sitt í Færeyjum. Til vara var þess krafist að tekjur vegna hluta skipanna hefðu verið í atvinnustarfsemi og því hefðu þau félög verið undanskilin CFC-skilum enda upplýsingaskiptasamningur í gildi. Því var einnig hafnað. Úrskurðurinn stóð því.

Í dómi Landsréttar var litið til þess að félögin í Antígva og Barbúda væru skráð í lágskattaríki í skilningi laga um tekjuskatt. Tók Landsréttur fram að svo unnt væri að leggja til grundvallar að ekki væri um eignatekjur að ræða þyrfti eðli máls samkvæmt að sýna fram á að tekjurnar stöfuðu af raunverulegri atvinnustarfsemi. Landsréttur féllst á það með héraðsdómi að Eimskipafélagið hefði ekki sýnt fram á að því skilyrði hefði verið fullnægt.

 

Deila: