Methagnaður Samskipa

Deila:

Flutningafélagið Samskip hagnaðist um 3,2 milljónir evra eða sem nemur 485 milljónir króna á síðasta ári eftir 2,6 milljóna evra tap árið 2020 og 1,9 milljóna evra tap árið 2019. Frá þessu er greint á vb.is

„Afkoma Samskipa fyrir árið 2021 er methá, samanborið við síðustu 10 ár, knúin áfram af sterkri afkomu innanlands, vöruhúsa, flutningsþjónustu og fraktflutninga. Magn í innanlands- og fraktflutningum var mikið sem má rekja til öflugs efnahagsástands á Íslandi og sterkrar loðnuvertíðar,“ segir stjórn Samskipa í nýbirtum ársreikningi.

Stjórnin segir að aðgerðir sem gripið var til árið 2020 vegna útbreiðslu Covid-veirunnar með fækkun starfsmanna og hagræðingu í siglingakerfinu hafi átt stóran þátt í fjárhagslegri niðurstöðu síðasta árs.

Rekstrartekjur Samskipa jukust um 16,4% á milli ára og námu 176 milljónir evra eða um 26,5 milljarða króna. Flutningskostnaður jókst um 12,3% og nam 170 milljónum evra. EBITDA-hagnaður Samskipa nam því ríflega 6 milljónum evra eða um 900 milljónum króna en til samanburðar var 289 þúsund evra EBITDA-tap árið 2020.

Í skýrslu stjórnar, sem var undirrituð 12 apríl sl., segir að horfur fyrir árið 2022 séu að mestu jákvæðar. Óvissuþættir á borð við háa verðbólgu og stríðið í Úkraínu geti þó haft í för með sér neikvæð áhrif.

„Möguleiki er á að stríðið leiði til birgðaskorts fyrir viðskiptavini Samskipa sem leiði til þess að innflutningur minnki, einkum á byggingarefni frá Eystrasaltsríkjunum. Einnig er hugsanlegt að mikil verðbólga hafi áhrif á eftirspurn eftir neysluvörum og byggingarefni.“

Eignir Samskipa voru bókfærðar á 57,3 milljónir evra eða sem nemur 8,5 milljörðum króna miðað við gengi krónunnar í lok síðasta árs. Þá nam eigið fé um 16,7 milljónum evra eða um 2,5 milljarða króna. Meðal skulda Samskipa er 4,4 milljónar evra víkjandi lán. Aðaleigendur Samskipa eru hjónin Ólafur Ólafsson og Ingibjörg Kristjánsdóttir sem fara með samtals 80% hlut samkvæmt fyrirtækjaskrá Skattsins.

 

Deila: