Um 150 fyrirtæki á sjávarútvegssýningunni í Laugardalshöll

Deila:

Um 150 innlend og erlend fyrirtæki verða með sýningarbása á sýningunni SJÁVARÚTVEGUR 2022 – ICELAND FISHING EXPO í Laugardalshöll dagana 21. -23. september næstkomandi.  Að sýningunni stendur fyrirtækið Ritsýn ehf. og segir Ólafur M. Jóhannsson, framkvæmdastjóri, að mikill áhugi hafi verið á þátttöku en þetta er í þriðja sinn sem Ritsýn heldur sjávarútvegsýningu sem þessa. Þær fyrri voru árið 2016 og 2019.

 

Mikill áhugi og meðbyr

Ólafur segist hafa fundið mikinn meðbyr í undirbúningi sýningarinnar og voru öll sýningarrými uppseld fyrir nokkru.

Sýningin endurspeglar þá miklu þróun sem á öllum sviðum íslensks sjávarútveg. Gestir koma til með að sjá það nýjasta í alls kyns búnaði sem tengist útgerð og fiskvinnslu, nýjungar í fiskileitar- og fjarskiptabúnaði, þeir kynnast framþróun í hugbúnaðargerð sem tengist sjávarútvegi og þannig má lengi telja. Meðal sýnenda eru einnig fyrirtæki í þjónustu við hina ört vaxandi fiskeldisgrein á Íslandi sem margir telja að muni verða stærri en fiskveiðar- og fiskvinnsla í framtíðinni. Fyrst og fremst verður SJÁVARÚTVEGUR 2022 stór, fjölbreytt og fræðandi sýning, jafnframt því að vera dýrmætur vettvangur viðskiptatengsla í sjávarútvegsgreininni,“ segir Ólafur.

 

Þriggja daga sjávarútvegshátíð

SJÁVARÚTVEGUR 2022 hefst með setningarathöfn eftir hádegi miðvikudaginn 21. september þar sem Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra, opnar sýninguna formlega. Sýningin verður opin þann dag kl. 14 til 19 og kl. 10-18 á fimmtudegi og föstudegi.

„Eitt stærsta markaðstæki okkar er að sýnendur fá ótakmarkaðan fjölda boðsmiða og við reiknum með miklum fjölda gesta, líkt og á fyrri sýningum okkar,“ segir Ólafur og bætir við að í aðdraganda sýningarinnar verður hún kynnt í innlendum sjávarútvegsmiðlum og öðrum fjölmiðlum, sem og á samfélagsmiðlum. Eins og áður segir eru bæði innlendir og erlendir sýnendur og í því sambandi nefnir Ólafur að m.a. hafi sendinefnd frá Möltu boðað komu sína á sýninguna.

„Af langri reynslu veit ég að þessi tími ársins er hentugur til sýningarhalds og Laugardalshöll er öll aðstaða til sýningarhalds eins og best verður á kosið. Þar er t.d. nýbúið að gera lagfæringar í eldri höllinni, endurnýja gólf og fleira. Og með þann meðbyr sem ég og starfsfólk við undirbúning sýningarinnar höfum fundið þá erum við spennt að opna sýninguna og bjóða gesti velkomna,“ segir Ólafur M. Jóhannesson.

 

Deila: